15. maí 2015

Opið fyrir umsóknir í Endurmenntunarsjóð grunnskóla

  • SIS_Skolamal_190x160

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Endurmenntunarsjóð grunnskóla vegna endurmenntunarverkefna skólaárið 2015-2016 (1. ágúst 2015 - 31. júlí 2016). Umsóknarfrestur er til og með 1. júní 2015.

Þeir sem hyggjast standa fyrir endurmenntun fyrir kennara og stjórnendur grunnskóla geta sótt um framlög úr sjóðnum, þar á meðal grunnskólar, skólaskrifstofur, sveitarfélög, símenntunarstofnanir, félög, fyrirtæki og aðrir.

Gert er ráð fyrir að námskeiðum verði að fullu lokið eigi síðar en við lok skólaársins 2015-2016. Verði ekki unnt að ljúka námskeiðum innan þeirra tímamarka fellur styrkveiting niður.

Stjórn sjóðsins hefur ákveðið að allt að þriðjungi ráðstöfunarfjár verði úthlutað til verkefna sem tengjast eftirfarandi áherslusviðum:

  • Náttúrugreinar
  • Upplýsinga- og tæknimennt

Þær umsóknir einar koma til álita sem sýna fram á að endurmenntunarverkefnin mæti þörfum grunnskólans, séu byggð á skólastefnu, aðalnámskrá, fagmennsku og gæðum. Þegar fyrir liggur ákvörðun um hverjir fá styrk og fjármögnun styrkja tryggð verður gerður sérstakur samningur um hvert endurmenntunarverkefni.

Umsóknum skal skila inn á rafrænu formi. Umsóknir á öðru formi verða ekki teknar gildar. Ekki er tekið við viðbótargögnum og því verða allar upplýsingar að koma fram í umsókninni.

Mikilvægt er að umsækjendur kynni sér umsóknareyðublaðið vel áður en þeir hefjast handa við að fylla inní það. Æskilegt er að fylla eyðublaðið út í einni lotu og senda inn. Hægt er að vista umsóknina og koma að henni aftur en engin ábyrgð er tekin á þeim upplýsingum sem kunna að glatast við það.

Þegar umsókn hefur verið skráð í skjalakerfi Sambands íslenskra sveitarfélaga er hægt að prenta hana út af vefgátt Sambands íslenskra sveitarfélaga undir flipanum Málin mín.

Til að sækja um þarf að hafa Íslykil frá http://www.island.is/islykill/. Nota þarf kennitölu og Íslykil umsækjanda (t.d. grunnskóla, skólaskrifstofa, sveitarfélaga, símenntunarstofnana, félaga, fyrirtækja).

Þeir sem ekki hafa aðgang að Íslykli geta sótt um notendanafn og lykilorð á vefgátt Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en umsókn er fyllt út. Hver umsækjandi (t.d. grunnskóli, skólaskrifstofa, sveitarfélag, símenntunarstofnun, félag, fyrirtæki) getur aðeins haft einn aðgang að vefgáttinni. Einn aðili sækir um notendanafn og lykilorð fyrir hönd umsækjanda og ber ábyrgð á því.

Áður en sótt er um skulu umsækjendur kynna sér reglur um Endurmenntunarsjóð grunnskóla.

Kolbrún Erna Magnúsdóttir veitir aðstoð við tæknileg atriði í síma 515 4944 eða í tölvupósti á kolbrun.erna.magnusdottir@samband.is.

Nánari upplýsingar veitir Klara E. Finnbogadóttir í síma 515 4924 eða í tölvupósti á klara.e.finnbogadottir@samband.is.