07. ágú. 2014

Hvað fékkstu á prófinu?

Málþing Sambands íslenskra sveitarfélaga um skólamál verður haldið  á Grand hóteli 8. september nk. og hefst dagskráin kl. 10:00.  Umfjöllunarefnið að þessu sinni er námsárangur í íslenskum skólum.  Snýst skólastarf um  árangur í námi eða að fjölbreyttum hópi nemenda líði sem best? Ákveðið var að beina kastljósinu að námsárangri m.a. í ljósi síðustu PISA niðurstaðna. Þær gefa ótvírætt til kynna að íslenskir nemendur ættu að geta gert betur sérstaklega ekki hvað síst vegna þess að skólabragur og viðhorf nemenda til náms hafa batnað verulega, líðan þeirra og samskipti í skólanum góð og jöfnuður ríkir.

Niðurstöður nýrrar TALIS rannsóknar komu nýverið út. Þar  kemur m.a. í ljós að yfir 90% kennara voru sammála því að kostir þess að vera kennari væru mun fleiri en ókostirnir og nánast allir íslensku kennararnir eru ánægðir með frammistöðu sína í skólanum eða um 98%.

Íslenskt skólakerfi hefur því ríkar forsendur til þess að gera gott skólastarf ennþá betra og íslenska nemendur samkeppnisfærari þegar kemur að samanburði við aðrar þjóðir. En hvernig eigum við að fara að því? Nýverið kom út Hvítbók menntamálaráðherra um umbætur í menntun. Þar er lögð er áhersla á að bæta læsi, skilvirkni framhaldsskólastigsins og starfsmenntun og því kominn leiðarvísir um hvert ríkið vill stefna. Fagnar sambandið þeirri stefnumótun sem hvítbókin felur í sér og vonar að henni verði fylgt eftir bæði af metnaði og áræði og fjármagn tryggt til aðgerða á fjárlögum.

Markmiðið með málstofu sambandsins um skólamál er að koma á samráðsvettvangi fræði- og fagmanna, sveitarstjórnarmanna, sem ákvarða stefnumótun sveitarfélags, og starfsmanna sveitarfélaga, sem framfylgja henni, og annarra hagsmunaaðila um skólastarf sveitarfélaga. Málstofunni er ætlað að skapa virkan samræðugrundvöll þessara aðila  þar sem ávinningur getur orðið bein hagnýting niðurstaðna, hugmynda og upplýsinga inn í stefnumörkun sveitarfélaga og almenna umræðu í skólamálum.

Markhópurinn  samanstendur af sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga í skóla- og fræðslumálum, fræðslunefndum, foreldrum, auk fræðimanna og sérfræðinga á þessu sviði sem og öðrum áhugasömum um íslenskt skólastarf.

Hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu frá málstofunni á upplýsingavef sambandsins: http://www.samband.is/um-okkur/bein-utsending/

Opnað hefur verið fyrir skráningu á: http://www.samband.is/verkefnin/skolamal/skolathing-og-malstofur/malthing-2014/