09. maí 2014

Foreldraverðlaun Heimils og skóla – landssamtaka foreldra 2014

  • heimiliogskoli

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 19. sinn fimmtudaginn 8. maí sl. við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, ávarpaði samkomuna og afhenti verðlaunin ásamt formanni dómnefndar, Gísla Hildibrandi Guðlaugssyni og formanni Heimilis og skóla, Önnu Margréti Sigurðardóttur. Alls bárust 36 gildar tilnefningar til verðlaunanna.

Viskubrunnur hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2014. Verkefnið er unnið á Seyðisfirði og er spurningakeppni þar sem foreldrar, starfsfólk og nemendur Seyðisfjarðarskóla sameina krafta sína við undirbúning og safna í leiðinni fyrir skólaferðalagi 9. og 10. bekkjar skólans til Danmerkur. Verkefnið eflir tengsl skólastarfsins við nærsamfélagið og er leið til þess að gera nemendur virkari þátttakendur í samfélaginu og almennu félagsstarfi.

Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla 2014 hlaut verkefnið Söguskjóður sem starfrækt er á Dalvík og er samstarfsverkefni fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar og leikskólanna Kátakots og Krílakots. Markmið verkefnisins er að fá foreldra (ekki síst af erlendum uppruna) inn í starf skólanna og að búa til málörvandi námsefni.

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2014 er Helga Margrét Guðmundsdóttir.  Hún hlaut viðurkenninguna fyrir eflingu foreldrastarfs og borgaravitundar. Hún á stóran þátt í þeirri vitundarvakningu og eflingu foreldrasamstarfs sem hefur átt sér stað á síðustu árum um land allt.

Sjá nánar á vef Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.