10. apr. 2014

Vel heppnuð fundarherferð um framtíðarsýn leikskólans

  • Reykjanes_2

Miðvikudaginn 9. apríl lauk fundarherferð um framtíðarsýn leikskólans en á grundvelli bókunar með kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, vegna Félags leikskólakennara annars vegar og Félags stjórnenda leikskóla hins vegar, voru haldnir átta samráðsfundir, einn í hverjum landshluta, til að ræða sameiginlega framtíðarsýn leikskólans.

Á fundunum gafst öllum fulltrúum skólasamfélagsins tækifæri til að ræða stefnumótun á uppbyggilegum nótum. Er óhætt að segja að fundirnir hafi gengið mjög vel, verið vel sóttir og kröftugir. Umræðan hefur verið góð, gagnleg og hressandi. Afrakstur fundanna verður stefnuskjal sem er hugsað sem grundvöllur að framtíðarsýn leikskólans, með leiðum og aðgerðum um það hvernig leikskólastarfi verði best hagað með hagsmuni leikskólabarna að leiðarljósi. Þessi vinna er til þess fallin að styrkja leikskólastarf í landinu enn frekar.