05. nóv. 2013

Fresta á innleiðingu nýs námsmatskerfis

  • Illugi

Skólaþing sveitarfélaga 2013 fór fram í gær, mánudaginn 4. nóvember. Á þinginu flutti Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, erindi þar sem hann upplýsti að hann hygðist fresta innleiðingu nýs námsmatskerfis aðalnámskrár grunnskóla til ársins 2016. Skóalstjórnendur, fræðslustjórar sveitarfélaga og fleiri höfðu áður lýst yfir efasemdum og áhyggjum af því að innleiðingu námsmatshlutans væri ekki ætlaður nægur tími. Samkvæmt nýja námsmatskerfinu  munu grunnskólanemendur fá einkunnir í bókstöfum frá A og niður í D.

Illugi greindi frá því að hann hafi sett tvö meginmarkmið innan ráðuneytisins. Annars vegar að bæta árangur nemenda í grunnskóla í læsi og hins vegar að gera framhaldsskólann tilbúinn til þess að koma til móts við kröfur 21. aldarinnar um þekkingu og hæfni nemenda og hækka hlutfall útskrifaðra úr framhaldsskólum innan eðlilegra tímamarka. Segir hann að drög að hvítbók sé væntanleg úr ráðuneytinu þar sem fram komi greining á stöðu og stefnu í þessum málaflokkum. Bókin verði grundvöllur samráðs hagsmunaaðila um ákvarðanatöku um aðgerðir.

Þá kom fram í máli ráðherra að hann telji að stytta eigi nám fyrir leikskólakennara þannig að þeir öðlist starfsréttindi að loknu þriggja ára námi en ekki fimm eins og nú er. Mikill skortur er á fagmenntuðum kennurum inní leikskólana en aðsókn að náminu hefur minnkað mikið eftir að lengd þess var aukin úr þremur árum í fimm.

Hlusta má á erindi mennta- og menningarmálaráðherra hér á vef sambandsins auk annarra erinda sem flutt voru.