04. nóv. 2013

Skólaþing sveitarfélaga stendur nú yfir í Reykjavík

  • Skolathing

Skólaþing sveitarfélaga fer nú fram á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu í Reykjavík. Fyrir hádegi var sjónum beint til Danmerkur, en formaður danska skólastjórafélagsins, Anders Balle, upplýsti þinggesti um þær umfangsmiklu breytingar sem danski grunnskólinn er að ganga í gegnum, þ.m.t. á vinnutímaskipulagi kennara, í kjölfar nýrrar menntastefnu stjórnvalda og verkbanns á kennslu sl. vor sem leiddi loks til lagasetningar. 

Eftir hádegið flutti Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra ávarp en að því loknu hefur athyglinni verið beint að kennaramenntun, áhrifum sveitarstjórna á grunnskólann, hljóðvistarmálum í leikskólum og „tossum“. Í 3. og síðasta hluta skólaþings verða nokkur stutt erindi (10 mín.) undir yfirskriftinni skóli og samfélag. Greint verður frá samstarfsverkefnum vinnuskóla við annars vegar fyrirtæki og hins vegar verkmenntaskóla, gangi skólahalds á Tálknafirði þar sem eini skólinn er samrekinn „samningsskóli“ og reynslu borgarinnar af samkomulagi um eflingu tónlistarfræðslu.

Erindi sem flutt eru á skólaþinginu eru tekin upp og verða færð inná síðu þingsins síðar í vikunni. Glærusýningar frummælenda verða hins vegar færð inn jafnóðum og erindin eru flutt í dag.

Skolathing
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Anders Balle, formaður danska skólastjórafélagsins, Svanhildur María Ólafsdóttir, formaður Skólastjórafélags Íslands og dr. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ svöruðu fyrirspurnum eftir fyrsta hluta skólaþingsins í morgun.