28. des. 2012

Ný bókasafnalög samþykkt

  • Althingi_300x300p


Alþingi hefur samþykkt ný bókasafnalög, sem m.a. taka til allra almenningsbókasafna sem rekin eru af sveitarfélögunum. Eldri lög um almenningsbókasöfn falla samhliða úr gildi.

Frumvarpið var unnið í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna en í þeirri nefnd situr einn fulltrúi tilnefndur af sambandinu. Var talið að frumvarpið væri vel ásættanlegt fyrir sveitarfélögin, þ.e. að lagaramminn samkvæmt því myndi veita nægjanlegt aðhald í ljósi þess að um almannaþjónustu er að ræða en jafnframt skapa svigrúm til þess að þróa áfram ýmsa þjónustuþætti, þar á meðal um útibú eða útlánastöðvar.

Niðurstaða kostnaðarmats á frumvarpinu var að áhrif frumvarpsins á sveitarfélögin fælust einkum í svigrúmi til að auka hagkvæmni með afnámi umdæmisskiptingar bókasafna og skyldu til að hafa bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og í fangahúsum. Heimildir til gjaldtöku vegna útlána, þjónustu, dagsekta og bóta eru gerðar skýrari en áður auk þess sem lögin gera ráð fyrir auknu samstarfi bókasafna sem rekin eru fyrir opinbert fé. Að mati sambandsins eru allar þessar breytingar jákvæðar.

Þá er athyglisvert nýmæli í 18. gr. laganna þar sem skapað er svigrúm til þess að bókasöfn geti í auknum mæli aflað sértekna, sem m.a. gætu falist í því að fá styrktaraðila til að borga áskriftir ákveðinna tímarita og/eða gagnagrunna o.fl. Kveðið er á um að fjárframlög til bókasafna verði frádráttarbær til skatts en sambærilegt ákvæði er að finna í safnalögum, nr. 141/2011. Vakin er athygli á að þessi nýju safnalög öðlast gildi um komandi áramót, þ.e. 1. janúar 2013.