02. nóv. 2012

Skýrsla stýrihóps um starfsþróun kennara

  • SIS_Skolamal_760x640

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands og Menntavísindasvið Háskóla Íslands skipuðu samstarfsnefnd um símenntun kennara sem starfaði frá ágúst 2011 til október 2012. Samstarfsnefndin skipaði stýrihóp sem ætlað var að fylgja eftir þeim verkefnum sem nefndin hafði sett á oddinn í viljayfirlýsingu sinni.

Nú er komin út skýrsla stýrihópsins sem gefur yfirlit yfir starf og helstu tillögur samstarfsnefndar um símenntun/starfsþróun kennara neðan háskólastigs. Helsta tillaga stýrihópsins fólst í því að komið yrði á fót fagráði sem yrði formlegur vettvangur aðila til að vinna málaflokknum markvisst brautargengi.

Á málþingi samstarfsnefndarinnar, sem haldið var 18. október sl., tilkynnti Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra að hún hefði tekið ákvörðun um að fagráðið skyldi stofnað til að tryggja að starfsþróun kennara verði markviss og árangursrík. Þá væri afar þýðingarmikið að fagráðið fengi skýrt umboð til að afla upplýsinga um það fjármagn sem ætlað er til málaflokksins og dreifingu þess. Miklar vonir eru bundnar við störf fagráðsins til framtíðar.