16. mar. 2012

Skólaganga fósturbarna og viðurkenning grunnskóla

  • SIS_Skolamal_760x640


Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sent út til umsagnar tvenn reglugerðardrög vegna laga um grunnskóla nr. 91/2008.

Annars vegar er um að ræða breytingar á reglugerð við 43. gr. laganna um viðurkenningu á grunnskólum sem reknir eru af öðrum aðilum en sveitarfélögum með viðbótum um skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan, skv. heimild í 46. gr. laganna. Hins vegar er ný reglugerð um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum, skv. nýrri heimild í framangreindum lögum.

Sjá gögn á vef Alþingis um breytingar á grunnskólalögum 2011 til glöggvunar.

Ráðuneytiið hefur unnið að breytingum á gildandi reglugerð um viðurkenningu grunnskóla frá 2009, í samræmi við framangreindar lagabreytingar og óskað er eftir athugasemdum og ábendingum um drögin. Sjá gildandi reglugerð.

Ráðuneytið skipaði sl. haust starfshóp með aðilum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneyti, innanríkisráðuneyti, Barnaverndarstofu og mennta- og menningarmálaráðunneyti, til að vinna að reglugerð um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum og komin er tillaga frá starfshópnum til umsagnar.

Óskað er eftir athugasemdum og ábendingum við þessar tvær reglugerðir fyrir páska. Samhliða verða þessi drög send til starfshóps sem hefur fengið allar reglugerðir við leik- og grunnskólalögin til mats á kostnaðaráhrifum.

Vakin er athygli á því að þessar tvær reglugerðir eru þær síðustu sem settar verða við leik- og grunnskólalögin frá 2008, með síðari breytingum. Þá verður einungis eftir að setja nýjar aðalnámskrár grunnskóla fyrir námssvið grunnskóla í samræmi við lögin frá 2008, en vinna við námskrárgerðina er í fullum
gangi.