30. ágú. 2011

Mismunandi reglur og gjaldskrár varðandi leikskóla

  • krakkar-i-skola

Í sumar var gerð úttekt á gjaldskrám og reglum sveitarfélaga um kostnaðarþátttöku foreldra og afsláttarkjör vegna þjónustu leikskóla. Í ljós kom að sveitarfélögin haga afsláttarreglum vegna leikskóla á misjafnan hátt. Mikill munur er á verðskrá sveitarfélaganna bæði hvað varðar tímagjald og kostnað við fæði barns.

Til að mynda er kostnaður foreldra fyrir morgunmat og síðdegishressingu nærri því tvöfalt meiri í þeim sveitarfélögum sem eru með hæsta gjaldið miðað við þau sveitarfélög sem eru með lægsta gjaldið. Lægsta fjárhæð fyrir fjögurra tíma vistun, fyrir utan fæði, er 7.604 kr. á meðan sú hæsta er 13.756 kr. og er munurinn því 6.152 kr. Þegar kemur að forgangi og afslætti er munurinn á milli sveitarfélaga einnig töluverður.  Kostnaður foreldra er þó einungis brot af kostnaði sveitarfélaga við hvert leikskólapláss. Kostnaðarhlutdeild foreldra í Reykjavík, sem eru með barn í átta tíma vistun með öllu fæði, er til dæmis um 14% af raunkostnaði borgarinnar fyrir slíkt pláss.

Úttektin var framkvæmd í byrjun ágúst og var upplýsinga aflað af heimasíðum 25 fjölmennustu sveitarfélaga landsins sem og af heimasíðum leikskóla sveitarfélaganna. Niðurstöður hennar eru birtar í meðfylgjandi skýrslu. Valur Rafn Halldórsson, starfsmaður hag- og upplýsingasviðs sambandsins, vann úttektina.

Úttekt á kostnaðarþátttöku foreldra vegna þjónustu leikskóla.