12. maí 2011

Kynning á skólavog

  • SIS_Skolamal_760x640

Samband íslenskra sveitarfélaga boðar til kynningar á Skólavoginni og mögulegu samstarfi við Norðmenn mánudaginn 23. maí á Grand Hótel. Kynningin byrjar kl. 13:00 og er áætlað að henni ljúki kl. 16:00. Á kynningunni munu tveir fulltrúar frá norska sveitarfélagasambandinu kynna sitt kerfi. Erindi þeirra verða flutt á ensku, en glærur þeirra verða sendar til skráðra þátttakenda á íslensku fyrir kynninguna. Kynningin er þátttakendum að kostnaðarlausu.  Sveitarfélög mega senda fleiri en einn fulltrúa.

Boð á kynninguna var sent á alla framkvæmdastjóra sveitarfélaga, formenn fræðslunefnda, skólaskrifstofur og bæjarritara/fjármálastjóra. Áréttað er mikilvægi þess að sveitarstjórnarmenn mæti á kynninguna.

Til að fyrirbyggja að málerfiðleikar hamli umræðum og fyrirspurnum verður sá háttur hafður á að allar fyrirspurnir þátttakenda til Norðmanna verða bornar upp á íslensku, en fulltrúi á vegum sambandsins mun sjá um að snara þeim yfir á ensku. Svör þeirra við fyrirspurnum verða einnig þýdd.

Athygli er vakin á því að í júnílok 2011 þarf að liggja fyrir ákvörðun hvers sveitarfélags fyrir sig um hvort það taki þátt í verkefninu eða ekki. Því er mikilvægt að val a.m.k eins fulltrúa sveitarfélags á kynningunni endurspegli mikilvægi við ákvarðanatökuna í framhaldinu.

Kynningarbæklingur um Skólavogina sem sendur var til allra sveitarfélaga í febrúar sl.

Kynningin verður tekin upp og hægt verður að nálgast upptöku af henni á vef sambandsins fljótlega eftir að kynningunni lýkur.

Þátttakendur eru beðnir um að skrá sig á vef sambandsins í síðasta lagi fimmtudaginn 19. maí.

Dagskrá kynningarinnar.

Nánari upplýsingar veitir Valgerður Ágústsdóttir, sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði sambandsins valgerdur@samband.is