10. maí 2011

Nám er vinnandi vegur - opin námskynning í Laugardalshöll

  • namervinnandivegur_merki

Opin námkynning verður haldin í Laugardalshöll, fimmtudaginn 12. maí nk. kl. 11-16. Námskynningin er opin öllum sem hafa áhuga á að kynna sér nýja námsmöguleika í framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og fullorðinsfræðslu. Ráðgjafar frá Vinnumálastofnun og skólunum aðstoða gesti við að finna heppilegustu leiðirnar til að bæta menntun, auka hæfni og fjölga atvinnumöguleikum.

Nám er vinnandi vegur byggir á tillögum frá samráðshóp ráðuneyta, allra þingflokka, aðila vinnumarkaðarins og hreyfinga námsmanna sem forsætisráðherra skipaði. Fjármögnun átaksins var tryggð með samráði ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins í tengslum við gerð kjarasamninga en í heild verða framlög til menntamála með átakinu aukin um sjö milljarða króna næstu þrjú ár.

Framhaldsskólinn verður efldur og opnaður. Atvinnuleitendum verður gefið tækifæri til að mennta sig, sérstakur þróunarsjóður stofnaður til að efla starfstengt nám og samstarf skóla og fyrirtækja um starfstengt nám verður aukið. Lög um LÍN og framfærslukerfi námsmanna verða endurskoðuð, skil framhaldsskóla og fullorðinsfræðslu verða gerð sveigjanlegri, námsráðgjöf efld og vinnustaðanámssjóður styrktur.

Nám er vinnandi vegur byggir á því markmiði Íslands 2020 að hlutfall Íslendinga á aldrinum 20-66 ára sem ekki hafa lokið námi í framhaldsskóla fari úr 30% niður í 10% fyrir árið 2020.

Nám er vinnandi vegur.

Um átakið

Tillögur samráðsnefndar um vinnumarkaðsmál