08. nóv. 2017

Niðurstöður úr umbótaáætlunum liggja fyrir

Komin er út samantekt samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara vegna starfsumhverfis kennara og vinnumats í grunnskólum. Greindar eru niðurstöður umbótaáætlana sem gerðar hafa verið í grunnskólum landsins ásamt lokaskýrslum sveitarfélaga vegna málsins. Bjarni Ómar Haraldsson, sérfræðingur á kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga, kynnti þessa nýútkomnu samantekt á skólaþingi sveitarfélaga.

Í kjölfar kjarasamninga 2014 voru gerðar breytingar á starfsumhverfi kennara og vinnumat innleitt í grunnskólum. Í ljósi þess, að breytingarnar skiluðu ekki væntum árangri, urðu samningsaðilar sammála um, að fela hverju sveitarfélagi að fara yfir málið og greina hvernig gera mætti betur.

Alls skiluðu 139 skólar af 160 umbótaáætlun, þar af 36 skólar í Reykjavík.  Lokaskýrslur bárust frá 53 af 74 sveitarfélögum landsins, en rétt er að hafa hugfast í því sambandi, að samstarf er víða á milli sveitarfélaga í skólarekstri og sums staðar eru skólar ekki starfræktir.

Greining á niðurstöðum skilaði samtals 117 efnisatriðum, sem samstarfsnefndin flokkaði í eftirtalda sjö flokka eða innra starf skóla, stoðþjónustu, nám og kennslu, tækni og gögn, starfsþróun, húsnæði og vinnuumhverfi og annað.

Af algengum ábendingum má nefna að 92 skólar, eða 66,2% af þeim skólum sem tóku þátt, nefna atriði er lúta að ófullnægjandi aðbúnaði, s.s. tölvubúnað, skjávarpa, kennslugögn og smarttöflur.

Í rúmum 60% tilvika er bent á að fundir séu of margir og fundastjórn ekki nægilega marksviss.

Í liðlega 53% tilvika er talin rík þörf á auknu og rýmra skólahúsnæði og betri húsbúnaður er nefndur í 43% tilvika.

Hjá 52,8% þátttökuskóla kemur fram að námsmat og skráningar valdi miklu álagi og í 41% tilvika er bent á atriði sem tengjast samstarfi kennara og stjórnenda vegna vinnumats. Samstarfið hefði til dæmis mátt vera betra og samráð meira um gerð starfsmatsins.

Þá telja tæp 55% skóla að aðgang að sérfræðiráðgjöf skorti og er í því sambandi m.a. bent á að auka þurfi sértæk úrræði, styrkja viðbragðsáætlanir vegna erfiðra nemenda og bæta skipulag sérkennslu. Vísbendingar eru einnig um að mikil aukning hafi orðið á aga-, félags- og hegðunarvanda nemenda

Af atriðum, sem féllu ekki undir einn af meginflokkunum sex, má nefna hækkun grunnlauna og jöfnun launa, að mótuð verði jákvæð umræða um skólastarf og skilningur aukinn á kennarastarfinu og stytting kennaranáms.

Hvað framhald umbótastarfsins snertir, þá kom fram hjá Bjarna Ómari, að samningsaðilar eru sammála um að kannað verði hvernig takist til með framkvæmd umbótaáætlana og árangur af þeim metinn.

Aðrir fyrirlesrar sem tóku til máls á síðari hluta skólaþings sveitarfélaga, sem bar yfirskriftina  Hvar eru kennararnir? voru Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi Sambands Íslenskra sveitarfélaga, Jóhannes Skúlason, ráðgjafi og fv. grunnskólakennari, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar og kennaranemarnir Sólveig María Árnadóttir og Hjörvar Gunnarsson.

Síðasta orðið átti Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri í Norðurþingi.

Samantekt samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara á niðurstöðum í lokaskýrslum sveitarfélaga og umbótaáætlunum grunnskóla vegna úrvinnslu bókunar 1 með kjarasamningi aðila