11. mar. 2016

Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar, sem nemendur í 7. bekkjum grunnskóla vítt og breitt um landið taka þátt í, er víða einn sá viðburður í menningarlífi sveitarfélaga sem beðið er á hverju ári með mikilli eftirvæningu. Allir skólar, með um 4400  12 ára nemendur, eru árlega skráðir til verkefnisins og keppnin ávallt sett formlega af stað á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember.  Þá hefst ræktunarhluti verkefnisins, sá hluti upplestrarkeppninnar sem mestu máli skiptir. Á því tímabili er lögð sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð í hverjum bekk og lýkur í lok febrúar. Í mars eru lokahátíðir keppninnar haldnar í hverju héraði og hafa þær verið 30- 32 í mörg ár.  Þar stíga á stokk fulltrúar skólanna og lesa texta og ljóð en  það er sama lesefnið hjá öllum og valið af fagfólki.  Einn þáttur keppninnar er þó sjálfvalið ljóð lesaranna. En Stóra upplestrarkeppnin hefur líka sent frá sér nýjan sprota sem er Litla upplestrarkeppnin sem haldin er í  í 4. bekk og byggir á sömu hugmyndafræði og sú stóra en löguð að þroska og aldri yngri nemenda. Markmiðið er að „verða betri í lestri í dag heldur en í gær“ og í því felst keppnin. Það verkefni hefur einnig náð talsverðri útbreiðslu og yfir 60 skólar víðs vegar um landið þátttakendur.

Verkefnið hefur frá upphafi hlotið afbragðsviðtökur skólafólks og er sérstaklega ánægjulegt að finna hvað nemendur hafa sýnt mikinn áhuga á að leggja sig fram um að lesa upp af listfengi.  Skólaskrifstofur hafa veitt keppninni brautargengi í sínu umdæmi og lagt henni ómetanlegt lið, en sjálft uppeldisstarfið, ræktun upplestrarins, hefur hvílt á herðum kennara.

Stóra upplestrarkeppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um eflingu tungunnar en er ekki greidd af yfirvöldum né skilgreind opinberlega sem hluti af verksviði skólayfirvalda. Vorið 2004 voru stofnuð formleg samtök, Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, sem hafa séð um framkvæmd keppninnar frá þeim tíma.  Upplestrarkeppnin er ekki “keppni” í venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni sem um leið er stuðningur við markmið aðalnámskrár í móðurmálskennslu. Höfuðáhersla er lögð á bekkjarstarfið og að allir nemendur njóta góðs af. Þá má geta þess að forseti Íslands veitti Ingibjörgu fálkaorðuna á nýársdag 2013 fyrir að styðja og styrkja læsi í grunnskólum landsins og þar vegur Stóra upplestrarkeppnin mest. Allar frekari upplýsingar má finna á vefsvæðinu: http://upplestur.hafnarfjordur.is/.