Um helmingur sveitarfélaga með yfir 90% mönnun réttindakennara

Alls eru 32 sveitarfélög, af þeim 62 sem reka grunnskóla, með allar eða nær allar kennarastöður mannaðar réttindakennurum. Þar af eru 26 sveitarfélög staðsett á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu ná fjögur af sex sveitarfélögum 90% mönnunarmarkinu. Í allri umræðu um kennaraskort heyrist þó gjarnan talað um að nýliðunarvandinn sé mun alvarlegri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. 

Alls eru 32 sveitarfélög, af þeim 62 sem reka grunnskóla, með allar eða nær allar kennarastöður mannaðar réttindakennurum. Þar af eru 26 sveitarfélög staðsett á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu ná fjögur af sex sveitarfélögum 90% mönnunarmarkinu. 

Í allri umræðu um kennaraskort heyrist þó gjarnan talað um að nýliðunarvandinn sé mun alvarlegri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt lykiltölum úr rekstri sveitarfélaga fyrir árið 2017 voru allar kennarastöður mannaðar kennurum með leyfisbréf í fimm sveitarfélögum á landsbyggðinni; Húnaþing vestra, Hrunamannahreppur, Skaftárhreppur, Svalbarðsstrandarhreppur og Skútustaðahreppur. 

Þá er 21 sveitarfélag utan höfuðborgarsvæðisins með réttindakennara í 90-99% tilvika og verður nýliðunarvandinn, með hliðsjón af því, vart einskorðaður lengur við landsbyggðina. Sú þróun kann að eiga sér skýringar í auknum búferlaflutningum ungs og vel menntaðs fólks af höfuðborgarsvæðinu og út á land samfara auknum og fjölbreyttari atvinnutækifærum. 

Alvarlegur nýliðunarvandi blasir þó engu að síður við og standa sveitarfélög í auknum mæli frammi fyrir skorti á réttindakennurum á báðum skólastigum. Fer sá vandi vaxandi, óháð landshlutum, en sem dæmi, þá hefur mönnun réttindakennara yfirleitt verið um og yfir 90% hjá öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins allt fram til ársins 2016. Ári síðar fylltu aðeins fjögur sveitarfélaganna þennan flokk, eins og áður var vikið að.

Þeim sveitarfélögum á landsbyggðinni hefur enn fremur fækkað á milli ára sem búa við fulla mönnun, en á árinu 2016 voru þau 11 talsins. Markverðasta breytingin á milli ára virðist því vera sú, að réttindakennara skortir nú í öllum landshlutum.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti vinnur um þessar mundir að útfærslu tillagna sem miða að aukinni nýliðun í kennarastéttum og fjölgun nemenda í kennaranámi, eins og fjallað var um á einni af málstofum nýliðinnar fjármálaráðstefnu sveitarfélaga fyrr í þessum mánuði. 

Tillögurnar, sem flestar hafa verið kostnaðar- og áhættumetnar, liggja nú fyrir og byggja að hluta til á tillögum sem Samband íslenskra sveitarfélaga vann á síðasta ári í samráði við Menntavísindasvið HÍ og kennaradeild Háskólans á Akureyri. 

Tillögurnar endurspeglast í fimm meginaðgerðum:

  • Lánasjóður íslenskra námsmanna veiti sértæka styrki til kennaranema.
  • Fimmta árið í kennaranámi verði launað starfsnám á vettvangi skóla.
  • Nýliðar og kennaranemar fái markvissa leiðsögn og innleiðingu í starf.
  • Kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn verði fjölgað.
  • Leyfisbréf kennara veiti réttindi til kennslu á aðliggjandi skólastigum.

Eins og sjá má, er um metnaðarfullar aðgerðir að ræða. Tillögurnar eru byggðar á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og vonast er til að þær komi til framkvæmda ekki síðar en næsta haust, að lokinni afgreiðslu hjá yfirstjórn menntamála. 

Nylidunarvandi-skyringarmynd

Skipurit  yfir vinnuferli tilagnanna.

Uppfært 26.10.2018