30. jan. 2017

Gerð viðmiða um gæði frístundastarfs á frístundaheimilum fyrir börn á grunnskólaaldri

Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins kemur fram að stofnaður hefur verið starfshópur til að vinna að gerð viðmiða um gæði frístundastarfs í samráði við fagfólk, sem sinnir frístundastarfi, sveitarfélög, foreldra og aðra hagsmunaaðila. Er það í samræmi við þá auknu áherslu sem lögð hefur verið á stjórnvöld marki sér skýra stefnu í þessum málum til að tryggja að aðbúnaður barna á grunnskólaaldri sem dvelja á frístundaheimilum og skóladagvistum sé ásættanlegur og að tryggt sé að faglega sé staðið að rekstri slíkrar þjónustu.

Alþingi samþykkti 2. júní 2016 frumvarp um breytingu á lögum um grunnskólum þar sem meðal annars er kveðið á um að mennta- og menningarmálaráðuneytið gefi út, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, viðmið um gæði frístundastarfs.

Stofnaður hefur verið starfshópur til að vinna að gerð viðmiða um gæði frístundastarfs. Hópinn skipa:

  • Frá Mennta- og menningarmálaráðuneitinu; Guðni Olgeirsson sérfræðingur, sem jafnframt er formaður og Óskar Þór Ármannsson
  • Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Margrét Halldórsdóttir sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar, Sigrún Sveinbjörnsdóttir verkefnastjóri á frístundahluta fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Svandís Ingimundardóttir skólamálafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Þorsteinn Hjartarson fræðslustjóri í Árborg.

Þá hefur ráðuneytið hefur samið við Ragnar Þorsteinsson fyrrverandi sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um að vera verkefnisstjóri hópsins.

Starfshópurinn mun á næstunni vinna að gerð viðmiða um gæði frístundastarfs í samráði við fagfólk sem sinnir frístundastarfi, sveitarfélög, foreldra og aðra hagsmunaaðila. Einnig er gert ráð fyrir aðkomu Menntamálastofnunar að gerð viðmiðanna. Stefnt er að útgáfu viðmiðanna og kynningu á þeim síðar á þessu ári.

Gera má ráð fyrir að vinnan gagnist sveitarfélögum um land allt við að móta nánar starfsemi frístundaheimila sem hluta af grunnþjónustu. Þá standa vonir til að viðmiðin geri starfið markvissara og stuðli að auknu jafnræði nemenda um land allt og að frístundaheimili taki í auknum mæli mið af þörfum, þroska og áhuga allra barna og að börn með sérþarfir og nemendur af erlendum uppruna fái viðeigandi stuðning í samræmi við áherslur almennt í frítímaþjónustu. Einnig nýtast viðmiðin við mat og eftirlit með starfseminni.

Alþingi samþykkti á fundi sínum 2. júní 2016, lagafrumvarp um breytingu á lögum um grunnskólum á þann hátt að á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, 33. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Frístundaheimili.

Öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla skal gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila. Frístundaheimili er frístundavettvangur barna með áherslu á val barna, frjálsan leik og fjölbreytileika í viðfangsefnum og umhverfi. Við skipulag þjónustu frístundaheimila skal tekið mið af þörfum, þroska og áhuga hvers og eins.                                                                       

Sveitarfélög fara með faglegt forræði frístundaheimila, ákveða skipulag starfsemi þeirra og rekstrarform með samþættingu skóla- og frístundastarfs og þarfir barna að leiðarljósi.

Á frístundaheimilum gilda almenn ákvæði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim um öryggi og velferð barna, réttindi og skyldur, tilkynningarskyldu og ráðningarbann á grundvelli sakavottorðs.

Ráðuneytið gefur út, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, viðmið um gæði frístundastarfs, þ.m.t. um hlutverk og markmið, skipulag og starfsaðstæður, starfshætti, margbreytileika, stjórnun og menntun starfsfólks.

Sveitarfélög geta ákveðið að reka ekki frístundaheimili ef gildar ástæður eru fyrir hendi, t.d. staðbundnar aðstæður.

Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir vistun barna á frístundaheimili samkvæmt gjaldskrá sem þau setja og birta opinberlega. Gjaldskrárákvarðanir samkvæmt þessari grein eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr.