07. nóv. 2017

Gæðamenntun fyrir alla alls staðar

Sameiginleg þjónustusvæði fyrir menntamál, heilbrigðismál og félagsþjónustu eru á meðal þeirra aðgerða sem  lagðar eru til af stýrihópi um eftirfylgni við úttekt Evrópumiðstöðvar á menntun án aðgreiningar. Enda þótt skólakerfið sé tiltölulega vel fjármagnað má nýta fjármagnið betur og með markvissari hætti. Aðgerðaráætlun stýrihópsins var til umræðu á skólaþingi sveitarfélaga.

Niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir hér á landi voru kynntar í mars sl. en ráðist var í gerð úttektarinnar í framhaldi af samningi Mennta- og menningarmálaráðurneytisins við miðstöðina í nóvember 2015. Í framhaldi af úttektinni var skipaður stýrihópur um eftirfylgni við niðurstöðurnar, sem í eiga sæti auk menntamálaráðuneytisins, heilbrigðis- og félagsmálahlutar velferðarráðuneytisins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skólameistarafélag Íslands og Heimili og skóli. Úttekt miðstöðvarinnar er sú viðamesta sem gerð hefur verið hér á landi um framkvæmd opinberrar menntastefnu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Aðgerðaráætlun um menntun án aðgreinar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi

Ragnar S. Þorsteinsson er verkefnastjóri stýrihópsins og stiklaði hann á því helsta í aðgerðaráætlun hópsins, sem hlaut nýlega samþykkti menntamálaráðherra eða nú í ágúst sl.

Í greiningu á núverandi stöðu kemst starfshópurinn að þeirri niðurstöðu að við skiljum ekki öll hugtakið menntun án aðgreiningar með sama móti. Löggjöf og stefnumótun sveitarfélaga styðji stefnuna nokkuð vel, en gera megi betur í stuðningi við fagfólk, svo að það hafi nægilega góðar forsendur til að framfylgja stefnunni. Það sama eigi við um ráðstöfun  fjármuna. Nægir fjármunir virðist vera til staðar, en upplýsingar skorti um nýtingu þeirra m.t.t. menntunar án aðgreiningar.  Einig sé ljóst að við getum gert mun betur þegar að stjórnunarháttum og samstarfi kemur. Það eigi jafnt við um ríki og sveitarfélög sem og samstarf innan menntakerfisins. Einnig bendi flest til þess að gera megi betur í grunnmenntun og starfsþróun fagfólks.

Samkvæmt niðurstöðum úttektarinnar eru helstu styrkleikar íslenska skólakerfisins í þessu sambandi þeir, að allir eru sammála um mikilvægi menntunar án aðgreiningar. Þá er skólakerfið tiltölulega vel fjármagnað og nægilega sveigjanlegt til þess að innleiða megi nýjungar með árangursríkum hætti. Þá eru mikilvægustu stoðirnar í framkvæmd menntunar án aðgreiningar sagðar þrjár eða umræða um skilvirka framkvæmd innan skólakerfisins, endurskoðun tilhögun núverandi fjármögnunar og samkomulag innleiðingu á þeirri lágmarksþjónustu, sem framkvæmd á menntun án aðgreiningar skuli byggð á.

Að sögn Ragnars var það síðan meginverkefni stýrihópsins að gera tillögur um útfærslu á þeim sjö vísbendingum úttektin sýni að koma þurfi í framkvæmd, m.a. með því að gera raunhæfa aðgerðaáætlun úr garði.

Á meðal þeirra aðgerða sem lagðar eru til í áætluninni er að sett verði lágmarksviðmið um þjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi með það að markmiði að efla og samhæfa stuðningskerfi fyrir öll skólastig svo þjónustan verði samfelld í námsumhverfi menntunar án aðgreiningar.

Einnig er lagt til að komið verði á fót sérstökum samstarfsvettvangi ríkis og sveitarfélaga og annarra lykilaðila. Samhliða því verði ráðist í skilgreiningar á þeim viðmiðum sem framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar skuli styðjast við. Markmiðið er að festa í sessi stjórnskipulag og gæðastjórnunarkerfi sem stuðla í sameiningu að árangursríkri framkvæmd stefnunnar.

Aðrar aðgerðir sem vakið hafa athygli er stuðningur sen veita á skólastjórnendum á öllum skólastigum sem faglega leiðtoga hver á sínum vinnustað, innleiðing á starfsháttum lærdómssamfélagsins í öllum skólum og sameiginleg þjónustusvæði sem komið verður á fót fyrir menntamál, heilbrigðismál og félagsþjónustu.

Markmiðið með þessum aðgerðum er að gera öllum starfsmönnum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi kleift að sinna með ígrunduðum hætti daglegum störfum með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi og byggja þannig upp lærdómssamfélag.

Þá er lagt til að úttekt verði gerð á núverandi fjárveitingarreglum á öllum skólastigum með það fyrir augum að móta megi nýtt regluverk sem stuðli að skilvirkari nýtingu opinberra fjármuna og greiði í reynd fyrir framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar.

Auk Ragnars S. Þorsteinssonar, tóku til máls í fyrri hluta skólaþings Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Edda Óskarsdóttir, verkefnastjóri hjá Evrópumiðstöð, Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins, Hermína Gunnþórsdóttur og Birnu Maríu B. Svanbjörsdóttur, Haskólanum á Akureyri og Þorgjörg Helga Vígfúsdóttir, námssálfræðingur.