08. jan. 2019

Aukið aðgengi að menningar- og listasögu landsins

Nýr rammasamningur um myndbirtingar heimilar nú söfnum að  birta ljósmyndir á veflægum skráningarsíðum af þeim verkum sem falla undir höfundarrétt. Aðgengi að upplýsingum úr safnmunaskrám hefur, fram að þessu, verið nánast einskorðað við textaupplýsingar.

Í þessu felst, að aðgengi almennings að menningar- og listasögu landsins hefur aukist til muna ásamt því svigrúmi sem skólar hafa til að nýta upplýsingar úr safnmunaskrám til kennslu.

Vinnuhópur á vegum Listasafns Íslands og Myndstefs, höfundaréttarsamtaka myndhöfunda, stóð að gerð rammasamningsins. Öll söfn, sem hafa öðlast viðurkenningu safnaráðs eða eru í eigu íslenska ríkisins og starfa eftir lögum, geta gengið til samninga við Myndstef. Viðkomandi safn greiðir þá árlegt gjald til samtakanna og skuldbindur sig til að gæta sæmdarréttar við skráningar og merkingar samkvæmt höfundarlögum.

Ljósmyndir af höfundaréttarvörðum verkum ber jafnframt að vatnsmerkja, enda er notkun þeirra í hagnaðarskyni óheimil. Vegna slíkra nota ber að hafa samband við viðkomandi safn og greiða höfundarlaun í samræmi við samninga.

Þá tekur samningurinn til ólíkrar safnastarfsemi, en yfirleitt heyrir einhver hluti safnkosts undir höfundarrétt, hvort heldur um er að ræða ljósmynda-, byggða- eða hönnunarsöfn.

Ljósmynd: Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Ragnar Th. Sigurðsson, formaður Myndstefs og Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, við undirritun rammasamningsins, sem fór fram nýlega í Listasafni Íslands. Í bakgrunni sést í Ljósmynd án titils (1998) eftir Roni Horn og ávextir (2000) eftir Söru Björnsdóttur. (©Myndstef)