03. nóv. 2017

Skólaþing sveitarfélaga 2017

Skolathing-2017-litilTvö knýjandi viðfangsefni verða tekin til umfjöllunar á skólaþingi sveitarfélaga 2017 eða framkvæmd opinberrar menntastefnu hér á landi og vaxandi nýliðunarvandi í kennarastétt. Streymt verður beint af þinginu.

Aðilum í þjónustu við grunn- og leikskóla býðst að kynna vörur og þjónustu í tengslum við skólaþing sveitarfélaga. Alls hafa níu aðilar þekkst það boð eða Axis húsgögn, Epli, Garri, Hópbílar, Landvernd, Menntamálastofnun, Skólamatur, Sorpa og Umhverfisstofnun. Landvernd verður reyndar í tvöföldu hlutverki á staðnum, en samtökin kynna annars vegar Grænfánaverkefnið og hins vegar námsefni í matarsóun í samstarfi við Umhverfisstofnun.

Tökum nýjan kúrs: Fyrir hádegi verður fjallað um úttekt Evrópumiðstöðvar á framkvæmd opinberrar menntastefnu hér á landi og með hvaða hætti skuli brugðist við niðurstöðum hennar. Stórum spurningum er beint að sveitarfélögum í þessu samhengi sem lúta m.a. að þverfaglegum landshlutateymum í heilbrigðismálum, skólamálum og félagsþjónustu.
 
Hvar eru kennararnir? Eftir hádegi verður sjónum beint að vaxandi nýliðunarvanda í kennarastétt, hvaða leiðir séu færar til þess að bregðast við vandanum og undir hverjum það sé komið.  Verða m.a. teknar til umfjöllunar tillögur sem sambandið hefur unnið að í samstarfi við Menntavísindasvið HÍ og kennaradeild HA á þessu ári.

 

Skráning á skólaþing 2017 lýkur í hádeginu 3. nóvember.