Skipulagsdagurinn 2021

Fjórða bylgja heimsfaraldursins setti mark sitt á Skipulagsdaginn sem að þessu sinni var haldinn í Salnum í Kópavogi 12. nóvember sl.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í ræðustól á Skipulagsdeginum 2021. Ljósm.: Guðjón Bragason.

Færri sáu sér fært að mæta á fundinn en oft hefur verið en margir kusu að nýta tæknina og fylgjast með fundinum í streymi. Því miður var ólag á streyminu á fyrsta hluta fundarins en áhugasamir eru hvattir til að nýta sér upptökur frá fundinum sem verða aðgengilegar á vefsíðum Skipulagsstofnunar og sambandsins á næstunni.

Í ávarpi Aldísar Hafsteinsdóttur formanns sambandsins var komið víða við. Aldís ræddi um að það sé tvennt sem sé lang mikilvægast að setja sig inn í  þegar maður hlýtur kosningu í sveitarstjórn.  Það er auðvitað fjárhagsáætlunin og síðan er það aðalskipulag sveitarfélagsins með tilheyrandi greinargerð.  Sú vinna sem lögð er í gerð aðalskipulags er gríðarleg og í greinargerðinni og í fylgigögnum með aðalskipulagi má finna hafsjó af fróðleik um sögu, þróun og framtíð sveitarfélagsins sem viðkomandi hefur valist til að stýra.  Í því er lögð stefna sem byggir á viðamiklu samtali og því er mikilvægt að virða og vanda umgengni við þær skipulagsáætlanir sem samþykktar hafa verið. Vinnubrögð við gerð skipulagsáætlana og raunar opinberra áætlana almennt hafi þróast mikið á síðustu árum og mikilvægt sé að tryggja innbyrðis samræmi milli áætlana og framfylgd þeirra. Breyttum og bættum vinnubrögðum verður síðan að fylgja hugarfarsbreyting, sem felst í því að stefnur og áætlanir fari ekki bara ofan í skúffu heldur verði unnið með þær á grundvelli tímasettra aðgerðaáætlana, sem markvisst er fylgt eftir. Slík vinnubrögð munu borga sig til lengri tíma litið og strax skila sér í mun betri yfirsýn þeirra sem taka ákvarðanir.

Mikilvægi stefnufestu og framtíðarsýnar

Aldís minnti einnig á þörf fyrir fræðslu til handa sveitarstjórnarmönnum um skipulagsmál, þar sem áhersla verði lögð á mikilvægi stefnufestu og framtíðarsýnar og ekki síður hugmyndaauðgi og áhuga.  Nauðsynlegt sé að valdefla sveitarstjórnir og minna á að það eru þær sem fara lögum samkvæmt með stjórntækin, en stundum hafi skort á jafnvægi í samskiptum milli sveitarstjórna og framkvæmdaraðila.

Aldís ræddi einnig um samskipti ríkis og sveitarfélaga í skipulagsmálum. Markmið lagasetningar sem skerði skipulagsvald sveitarfélaga hlýtur ávallt að vera að tryggja mikilvæga almannahagsmuni. Við getum svo velt fyrir okkur hvernig til hafi tekist með slíkri lagasetningu. Efling þjóðgarða og fjölgun friðlýstra svæða sé að mörgu leyti mjög jákvæð þróun. En sú þróun verður að gerast í fullri sátt við nærsamfélagið og án of mikils asa.  Heimamenn á hverjum stað þekkja sína afrétti og vilja eðlilega hafa eitthvað um það að segja hvað þar fer fram. Á þá verður að hlusta og taka verður tillit til sjónarmiða sem fram koma hjá þeim sem hvað gleggst þekkja til.  Bráðræði er aldrei gott og samráðsleysi alslæmt.