Skipulagsdagurinn 17. nóvember – skráning hafin

Skipulagsdagurinn fer fram þann 17. nóvember í Háteigi, Grand Hótel, Sigtúni 28 í Reykjavík.

Skipulagsdagurinn er árleg ráðstefna Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skipulagsmál. Í ár verður sjónum beint að nokkrum af helstu viðfangsefnum og áskorunum okkar tíma í skipulagsmálum og landnotkun: stafrænni vegferð, fæðuöryggi, skipulagi bæjarrýmis og orkuskiptum. Fjölbreyttur hópur sérfræðinga og hagsmunaaðila frá ríki, sveitarfélögum og úr atvinnulífinu taka til máls og má búast við áhugaverðum framsögum og frjóum umræðum. Fundarstjóri verður Guðmundur Gunnarsson, fjölmiðlamaður og fyrrverandi bæjarstjóri.

Ráðstefnugjald er 6.000 krónur. Innifalið eru kaffiveitingar, hádegisverður og léttar veitingar að ráðstefnu lokinni. Sérstakur afsláttur er fyrir háskólanema, sem greiða 3.000 krónur. Skipulagsdagurinn verður einnig í beinu streymi og geta fjarfundargestir nýtt sér forritið Sli.do til að leggja fram spurningar og taka þátt í umræðum.