04. jan. 2019

Umsögn um greiningu á tækifærum með stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands

Samband íslenskra sveitarfélaga telur jákvætt að fyrstu verkefni þverpólitískrar nefndar, sem vinnur að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, skúli lúta að mögulegum áhrifum slíkrar framkvæmdar á byggðaþróun og atvinnulíf. 

Í umsögn sambandsins um textadrög, sem nefndin birti í nóvember sl. á samráðsgátt stjórnarráðsins vegna mögulegra tækifæra fyrir byggðaþróun og atvinnulíf sem fylgt geta stofnun þjóðgarðs og tillögur að helstu áherslum í atvinnustefnu segir, að enda þótt skýrar tillögur um mörk miðhálendisþjóðgarðs liggi enn ekki fyrir, sé engu að síður gagnlegt að nefndin sendi frá sér til umsagnar texta um einstaka þætti verkefnisins. 

Sambandið telur, að ekki sé tilefni til athugasemda við fyrirliggjandi textadrög frá nefndinni um þau atriði sem til umsagnar eru, en minnir á  umsögn þess um frumvarp til laga um Þjóðgarðastofnun, sem væntanlega myndi fara með yfirstjórn miðhálendisþjóðgarðs. Í þeirri umsögn er veruleg áhersla lögð á atriði sem snúa að nýtingu atvinnutækifæra í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum ásamt jákvæðri byggðaþróun í dreifbýli. Það sé því ánægjulegt að fyrsta útspil nefndarinnar skuli lúta að slíkum þáttum.

Sambandið telur á hinn bóginn brýnt, að horft verði til þess varðandi frekari þróun hugmyndarinnar um miðhálendisþjóðgarð, að sjálft hugtakið þjóðgarður getur haft mismunandi merkingu í hugum fólks. Hér á landi sé inntak hugtaksins fremur þröngt, s.s. hvað atvinnustarfsemi varðar. Þá sé svigrúm til orkuvinnslu innan þjóðgarða almennt mjög lítið skv. 2. mgr. 47. gr. náttúruverndarlaga:

Í þjóðgörðum eru allar athafnir og framkvæmdir sem hafa varanleg áhrif á náttúru svæðisins bannaðar nema þær séu nauðsynlegar til að markmið friðlýsingarinnar náist ...

Að áliti sambandsins er því fullt tilefni til að ræða hvort tilefni sé til að endurskoða ákvæði náttúruverndarlaga m.t.t. aukins sveigjanleika gagnvart atvinnustarfsemi og nýtingu auðlinda þar sem slík getur átt við. Tekið er jafnframt fram að skoðanir einstakra sveitarstjórna séu að líkindum nokkuð skiptar um það hversu langt eigi að ganga varðandi slíkar heimildir.