05. des. 2016

Umsögn um frumvarp um bílastæðagjöld utan þéttbýlis

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur veitt umsögn um frumvarp um breytingu á umferðarlögum , sem innanríkisráðherra hyggst leggja fram á Alþingi. 

Í umsögninni kemur fram að það er fagnaðarefni að ráðuneytið vinni að því að útvíkka heimildir sveitarfélaga til þess að leggja á bílastæðagjöld. Með því móti opnast möguleiki á því að fjármagna slíka innviði með beinni gjaldtöku, en erfitt hefur reynst að fá opinbera styrki til þess að fjármagna slíkar framkvæmdir, einkum ef stefnt er að því að bílastæði séu varanlega frágengin með bundnu slitlagi, enda eru slíkar framkvæmdir mjög fjármagnsfrekar. Sambandið leggur þó til fáeinar breytingar á frumvarpinu og leggur m.a. áherslu á að tekjur af bílastæðagjöldum á ferðamannastöðum megi  renna til þess að byggja upp ýmsa aðra innviði fyrir ferðamenn heldur en bílastæði, s.s. hreinlætisaðstöðu o.fl. Að áliti sambandsins er mikilvægt að við lokafrágang frumvarpsins verði það haft að leiðarljósi að sú gjaldtaka sem heimiluð verði þjóni sem best því markmiði sem að er stefnt. Það er jafnframt afstaða sambandsins að með því að horfa ekki eingöngu þröngt á kostnað við gerð bílastæðanna sjálfra, heldur einnig annarra innviða við ferðamannastað, skapist mikilvæg tækifæri til þess að hraða nauðsynlegri uppbyggingu, ásamt því að tryggja til framtíðar möguleika á að standa undir nauðsynlegu viðhaldi á innviðum.

Í umsögninni er bent á fleiri atriði sem rétt sé að huga að við fyrirhugaða lagabreytingu. Þar má m.a. nefna að skýrt verði kveðið á um að landverðir geti annast eftirlit með bílastæðum og að í lögunum verði kveðið á um viðurlög við því að húsbílum sé lagt á ferðamannastöðum til næturdvalar, sbr. ákvæði náttúruverndarlaga um að utan þéttbýlis skal leita leyfis landeiganda eða annars rétthafa ef nota á tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi, húsbíla og annan sambærilegan búnað utan skipulagðra tjaldsvæða. Einnig er kallað eftir því að heimild sveitarfélaga til að leggja á bílastæðagjöld einskorðist ekki við svæði í þeirra eigu heldur gildi heimildin einnig á ferðamannastöðum sem eru í umsjón sveitarfélaga.

Umsögn um frumvarp um bílastæðagjöld utan þéttbýlis