28. nóv. 2017

Tímabært að fjárheimildir ofanflóðasjóðs aukist umtalsvert

  • Minnisvardi-i-Neskaupstad

Ráðstöfunarfé ofanflóðasjóðs hefur skv. fjárlögum síðustu ára verið innan við helmingur af mörkuðum tekjum sjóðsins. Samband íslenskra sveitarfélaga vill að árlegar fjárheimildir ofanflóðasjóðs hækki, fari svo að tímabundnar heimildir sjóðsins vegna kostnaðar við hættumat verði framlengdar.

Ofanflóðasjóður tók til starfa árið 1997 með gildistöku laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og stendur árlegt 0,3% gjald á brunatryggingar húseigna undir fjármögnun sjóðsins. Er gjaldið innheimt samhliða iðgjaldi til Viðlagatryggingar Íslands.

Hættumat er í gildi á 23 þéttbýlisstöðum um land allt. Þar af eru 15 staðir á hættusvæði C, mesta hættusvæðinu á ofanflóðum og standa í mörgum tilvikum brýnar aðgerðir út af borðinu, eins og fram kemur í umfjöllun Ríkisútvarpsins um núverandi verkefnastöðu í ofanflóðavörnum. Manntjón er tilfinnanlegt, en um 700 manns hefur svo vitað sé farist í ofanflóðum, þar af  52 á síðasta fjórðungi 20. aldar.

Stadir-med-gildandi-haettumatYfirlitskortið sýnir staði á landinu með gildandi hættumat. Á myndina vantar Hnífsdal.

Auk þess að standa straum af öllum kostnaði vegna rannsókna og eftirlits með ofanflóðahættu, greiðir sjóðurinn m.a. allt að 90% af kostnaði vegna framkvæmda við varnarvirki og allt að 60% af kostnaði vegna viðhalds þeirra.

Þá hefur ofanflóðasjóður tekið skv. tímabundinni heimild í lögum þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða. Sú heimild rennur út um næstu áramót og hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið lagt til að þessi tímabundna heimild verði framlengd um fimm ár eða til 31. desember 2022, skv. drögum að frumvarpi sem eru nú til umsagnar.

Gangi frumvarpið eftir, verður ofanflóðasjóði gert kleift að kosta vinnu vegna næsta áfangahættumats, en gert er ráð fyrir að hlutur sjóðsins geti árlega orðið 50 m.kr. vegna eldgosa, 40 m.kr. vegna vatnsflóða og 20 m.kr. vegna sjávarflóða. Þetta er þó háð því að heimildir ofanflóðasjóðs á fjárlögum hækki til samræmis. Ef ekki, verður annað tveggja að lækka framkvæmdafé sjóðsins, sem þessum kostnaði nemur, eða að skjóta umræddu hættumati á frest.

Báðir kostir hljóta þó að teljast varasamir, að slá áhættumati á frest eða draga ella úr framkvæmdum vegna varnarvirkja. Fari samt svo að hættumatinu verði frestað, er hætt við að uppbygging hefjist, með ófyrirséðum afleiðingum, á svæðum sem eru hættusvæði, þegar betur er að gáð.

Í umsögn sambandsins um frumvarpsdrögin er bent á, að þær fjárheimildir sem um ræðir vegna hættumatsins rúmist innan tekjumarka ofanflóðasjóðs, en útgjöld hafa til skamms tíma verið um 40% af tekjum sjóðsins. Sambandið leggur því til, að samhliða heimildum ofanfljóðasjóðs til að taka þátt í kostnaði af áhættumati, verði tekin ákvörðun um að hækka árlega fjárheimild ofanflóðasjóðs, helst umtalsvert.

Enn fremur segir, að í kjölfar hrunsins hafi annað ekki verið hægt en að sýna því skilning að ríkið drægi tímabundið úr stuðningi við ofanflóðavarnir. Nú, tæpum áratug síðar, er hins vegar tímabært að fjárheimildir sjóðsins verði endurskoðaðar með hliðsjón af þeim innviðaverkefnum sem beðið hafi og bíða enn úrlausnar víða um land.

Sem dæmi má nefna verkefni vegna ofanflóðavarna á Bíldudal, en þar verður ekki unnt að nýta skipulagðar lóðir þrátt fyrir húsnæðisskort fyrr en byggðin hefur verið fullvarin. Á Siglufirði er stórum áföngum enn ólokið, á Seyðisfirði bíða framkvæmdir í sunnanverðum firðinum, í Norðfirði eru í bið tveir síðari áfangar af fjórum og svo mætti áfram telja.  

Upphaflega stóð til að framkvæmdum ofanflóðasjóðs við varnarvirki yrði lokið ári 2010, en því markmiði varð að seinka til ársins 2020. Staða sjóðsins nam um sl. áramót tæpum 14 ma.kr. og hefur m.a. bæjarstjórn Fjarðabyggðar gagnrýnt að sjóðurinn liggi á umtalsverðum fjármunum á sama tíma og brýnum verkefnum sé enn ólokið.

 

Minnisvardi-i-NeskaupstadMinnisvarði í Neskaupstað um þá sem farist hafa í snjóflóðum í Norðfirði Hönnuður er Robyn Vilhjálmsson, Listamiðju Norðfjarðar.