Sóknaráætlanir landshluta 2015-2019

Út er komin greinargerð stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál þar sem gerð er grein fyrir ráðstöfun fjárframlaga til sóknaráætlunarsamninga og framkvæmd þeirra árin 2015-2019. Upplýsingarnar í greinargerðinni byggjast að mestu á árlegum greinargerðum landshlutasamtakanna til stýrihópsins.

Í byrjun árs 2015 voru undirritaðir samningar milli ríkis og landshlutasamtaka sveitarfélaga um sóknaráætlanir landshluta. Samningarnir náðu til fimm ára, í stað eins árs áður, og nokkrum mánuðum síðar voru samþykkt á alþingi lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015. Þar með var verklag og hugmyndafræði sóknaráætlana fest í sessi.

Eitt af markmiðum sóknaráætlana var að valdefla landshlutana, þannig að ábyrgð og ákvörðunarréttur á ráðstöfun opinbers fjármagns flytjist heim í hérað. Landshlutasamtök sveitarfélaga hafa staðið vel undir þeirri ábyrgð sem fylgir umsýslu fjármuna og framkvæmd sóknaráætlanasamninga. Þau hafa sett sér skýrt og skilvirkt verklag við úthlutanir og umsýslu styrkveitinga og ráðstafa heimamenn fjármunum til verkefna sem þeir telja mikilvæg fyrir landshlutana og styðja við markmið sóknaráætlunar þeirra.

Í greinargerð stýrihópsins kemur m.a. fram að rúmum 5 milljörðum króna var varið til sóknaráætlana á tímabilinu 2015-2019. Unnið var að 283 áhersluverkefnum um land allt, flest verkefnin voru á Suðurlandi en fæst á höfuðborgarsvæðinu. Alls bárust ríflega 5.000 umsóknir í uppbyggingarsjóðina á tímabilinu og hlutu tæplega 3.000 verkefni úthlutað úr þeim.

Í lokaorðum greinargerðar stýrihópsins segir m.a.:

„Markmið sóknaráætlana landshluta er að auka samkeppnishæfni hvers landshluta og þar með landsins alls. Verklag sóknaráætlana styður við aukið lýðræði og kallar á samráð og sameiginlega stefnumörkun sem byggist á þekkingu heimamanna á hverjum stað. Frá upphafi hefur vinnan við sóknaráætlanir verið lærdómsríkt ferli fyrir Stjórnarráðið, sveitarfélögin og samtök þeirra. Stuðningur ríkisstjórna er ómetanlegur og forsenda þessarar jákvæðu þróunar. Mikilvægt er að halda áfram þeirri valdeflingu sem sóknaráætlanir hafa stuðlað að frá upphafi, þ.e. að ábyrgð á framkvæmd þeirra sé heima í héraði en stýrihópurinn sé ráðgefandi stuðningsaðili.“