02. feb. 2015

Umsögn sambandsins um tillögu að landsskipulagsstefnu 2015-2026

  • SIS_Skipulags_Byggdamal_760x640

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent Skipulagsstofnun umsögn sína um tillögu að landsskipulagsstefnu fyrir tímabilið 2015-2026. Í umsögninni eru settar fram ábendingar um ýmis atriði í tillögunni sem betur mættu fara að áliti sambandsins. Ábendingar sambandsins við tillöguna eru almennt þess eðlis að ekki á að vera flókið eða tímafrekt að bregðast við þeim og gera nauðsynlegar lagfæringar þar sem við á.

Í umsögninni er m.a. bent á að Skipulagsstofnun ber samkvæmt skipulagslögum að hafa hliðsjón af aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaga við gerð landsskipulagsstefnu. Sambandið leggur áherslu á að skjalið beri þess skýrar merki að þess hafi verið gætt í vinnunni, ekki síst við lokafrágang kafla um skipulag á miðhálendi Íslands. Er þetta sérstaklega mikilvægt með tilliti til þess að aðalskipulagsáætlanir sveitarfélaga taka að meginstefnu við af svæðisskipulagi miðhálendisins þegar það fellur úr gildi um leið og landsskipulagsstefna hefur verið samþykkt á Alþingi.

Æskilegt væri að gera skýrari greinarmun í skjalinu á stefnumarkandi tillögum, sem geta haft áhrif við staðfestingu aðalskipulagsáætlana sveitarfélaga, og tillögum sem fela í sér almenn leiðarljós fyrir sveitarfélögin um verklag við skipulagsgerð. Ljóst er að mikill meirihluti tillagna í skjalinu fellur í síðarnefnda hópinn en orðalag einstakra tillagna sem falla í þann hóp gefur þó stundum tilefni til að draga aðra ályktun, eins og bent er á í fylgiskjölum með umsögn sambandsins. 

Er þess vænst að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á tillögu að landsskipulagsstefnu áður en stofnunin gengur frá endanlegri tillögu til ráðherra og mun sambandið fela fulltrúum sínum í ráðgjafanefnd um gerð landsskipulagsstefnu að fylgja þessum ábendingum eftir við endanlegan frágang tillögunnar.

Umsagnarfrestur um tillöguna er til 13. febrúar nk. og eru sveitarfélög og landshlutasamtök hvött til þess að senda ábendingar til Skipulagsstofnunar fyrir þann tíma.