09. des. 2014

Umsagnir um raforkumál

  • Althingi_300x300p

Sambandið sendi þann 8. desember sl. umsagnir til atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um tvö mál sem geta haft mikil áhrif á skipulagsmál sveitarfélaga.

 Í fyrsta lagi er um að ræða umsögn um frumvarp til breytinga á raforkulögum. Í ítarlegri umsögn sambandsins um málið eru gerðar athugasemdir við ýmsa annmarka á frumvarpinu og lagðar til breytingar á þeim greinum frumvarpsins sem varða samráð við sveitarfélög um gerð kerfisáætlunar og áhrif kerfisáætlunar á skipulagsáætlanir. Sérstök áhersla er lögð á það af hálfu sambandsins að leita leiða til þess að komast hjá svo alvarlegu inngripi í skipulagsvald sveitarfélaga sem lagt er til í frumvarpinu. Í þeim tilgangi er lagt til að ágreiningi milli Landsnets og sveitarstjórnar um staðsetningu eða útfærslu línuleiðar, svo sem um val á milli loftlínu eða jarðstrengs, verði hægt að vísa til formlegrar sáttanefndar. Er í umsögninni vísað til nýlegra leiðbeininga um samráð Vegagerðarinnar og sveitarfélaga sem mögulegrar fyrirmyndar að samráðsferli.

Í umsögninni er enn fremur bent á að Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök orkufyrirtækja hafa um nokkurt skeið skoðað leiðir til þess að fækka þeim flokkum mannvirkja sem eru undanþegnir álagningu fasteigskatts og kemur fram í umsögninni að flutningskerfi raforku er á meðal þeirra mannvirkja sem sveitarfélögin hafa áhuga á að verði að skattandlagi. Atvinnuveganefnd Alþingis hefur óskað eftir nánari kynningu á fyrirkomulagi slíkrar skattheimtu í Noregi og verður sú kynning væntanlega haldin í byrjun næsta árs.

Í öðru lagi er um að ræða umsögn um tillögu að þingsályktun um stefnu stjórnvalda um raflínur. Í umsögninni koma m.a. fram athugasemdir um skilgreiningu náttúruverndarsvæða, sem þykja ekki nógu skýrar m.t.t. skipulagslaga og náttúruverndarlaga. Þá er gagnrýnt í umsögninni að viðmið um kostnaðarmun loftlína og jarðstrengja hafi verið lækkað frá þeirri tillögu sem upphaflega var kynnt, sem muni væntanlega að leiða til þess að það muni heyra til algerra undantekninga að meginflutningskerfið verði lagt í jörð. Af hálfu sambandsins er lagt til að orðalag í tillögunni varðandi þéttbýlissvæði verði rýmkað og lýst þeirri afstöðu að til framtíðar litið hljóti línulagnir í og við þéttbýli að liggja í jörðu, til þess að sporna ekki við þróun byggðar síðar meir. Ýmsar aðrar athugasemdir eru einnig gerðar við orðalag tillögunnar.

Í niðurlagi umsagnar um þingsályktunartillöguna leggur sambandið til að kveðið verði skýrt á um samráð við sveitarstjórnir og er gerð tillaga um að nýrri málsgrein verði bætt inn í grein 1.3 sem gæti hljóða svo:

„Áhersla skal lögð á það við undirbúning kerfisáætlunar fyrir meginflutningskerfið að eiga vandað samráð við viðkomandi sveitarstjórnir um nánari útfærslu línuleiðar í kerfisáætlun og aðalskipulagi. Settar verði verklagsreglur og leiðbeiningar um það samráðsferli, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.“