14. ágú. 2014

Skipulagsdagurinn 2014

  • skipulag_minni

Opnað hefur verið fyrir skráningu á Skipulagsdaginn, sem er árlegur samráðsfundur Skipulagsstofnunar og sveitarfélaga. Fundurinn verður að þessu sinni haldinn á Grand Hótel í Reykjavík, þann 29. ágúst n.k. Sjá meðfylgjandi dagskrá.

Til fundarins er boðið sveitarstjórnarmönnum, fulltrúum í skipulagsnefndum, skipulagsfulltrúum og öðrum starfsmönnum sveitarfélaga sem annast skipulagsmál.

Skrá þarf sig á heimasíðu Skipulagsstofnunar fyrir 27. ágúst. Þátttaka í fundinum er gjaldfrjáls en þátttakendur greiða sjálfir fyrir hádegisverð. Húsið verður opnað kl. 9:30 en fundur hefst kl. 10:00 og lýkur með léttum veitingum kl. 17:00. 

Þar sem fundurinn er nú haldinn í upphafi kjörtímabils verður sjónum sérstaklega beint að ábyrgð og helstu verkefnum sveitarstjórna og skipulagsnefnda varðandi skipulagsmál, enda margir að koma nýir inn á þann vettvang. Fjallað verður sérstaklega um endurskoðun aðalskipulags, en eitt af fyrstu verkefnum skipulagsnefnda á nýju kjörtímabili er að ákveða hvort þörf sé á að endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins. Þá mun verða greint frá málum sem eru til umfjöllunar á vettvangi Sambands íslenska sveitarfélaga auk þess sem fulltrúar ýmissa sveitarfélaga verða með innlegg um nýjar leiðir við íbúasamráð, rafræna stjórnsýslu, svæðisskipulagsvinnu á höfuðborgarsvæðinu og fleira.

Fundinum verður einnig streymt í gegnum heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnunar.