25. sep. 2015

Markviss rannsókn á heimasíðum skilaði auknum skatttekjum!

Hvalfjarðarsveit jók skatttekjur sínar um nær 2,5 milljónir króna á ári með því að innheimta hærri fasteignagjöld hjá eigendum sumarhúsa, sem leigðu þau út til ferðafólks en greiddu ekki af eigninni til sveitarfélagsins í samræmi við þá starfsemi.  Þetta kom fram í erindi Skúla Þórðarsonar sveitarstjóra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.

Regluverk um útleigu fasteigna og skattlagningu sumarhúsa er giska flókið á köflum. Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga er þannig kveðið á um að skatthlutfall fasteignagjalda í A-hluta skuli vera 0,5% af fasteignamati fyrir tilteknar eignir, þar á meðal „ sumarbústaði ásamt lóðarréttindum“. Í C-hluta er skatthlutfallið hins vegar 1,32% og gildir meðal annars fyrir „ mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.“

Það skiptir því máli fyrir bæði greiðendur fasteignagjalda og viðtakendur fjármuna (sveitarfélaga þar sem sumarhúsin eru) hvorum megin hryggjar, A eða C, eignirnar eru þegar fasteignagjöld eru lögð á og innheimt!

Stjórnendur Hvalfjarðarsveitar ákváðu að kanna með skipulegum hætti hvort brögð væru að því að sumarhús væru leigð út til ferðafólks og að eigendur þeirra borguðu af þessum eignum fasteignagjöld samkvæmt A-hluta en ættu í raun að greiða samkvæmt C-hluta í áður tilvitnuðum lagaákvæðum (borguðu sem sagt minna en þeim bar).

Niðurstaðan varð sú að sveitarfélagið hækkaði álagningarhlutfallið á nokkur sumarhús um áramótin 2014/2015. Í kjölfarið lögðust starfsmenn þess svo rannsóknarvinnu! Þeir plægðu í gegnum hinar og þessar heimasíður á Vefnum, þar sem sumarhús og íbúðir eru auglýstar til leigu fyrir ferðamenn. Í Hvalfjarðarsveit eru alls 460 sumarhús og í ljós kom að tugir þeirra voru leigðar út á opinberum vettvangi.

Rannsóknarvinnan á Vefnum leiddi til þess að bréf um hækkun fasteignagjalda voru send eigendum 19 sumarhúsa og boðuð breytt álagning frá 15. ágúst 2015. Andmælaréttur var veittur og í ljós kom að álitaefnin voru mörg. Horfið var frá hækkun fasteignagjalda í nokkrum tilvikum en eftir stóðu önnur þar sem eigendum sumarhúsa var gert að greiða hærri fasteignagjöld, líkt og lög kveða á um. Þannig jukust skatttekjur Hvalfjarðarsveitar um 2,5 milljónir króna á ári.

Skúli Þórðarson sveitarstjóri sagði að málið snerist í sjálfu sér ekki um tekjurnar sem slíkar, heldur um réttlæti og sanngirni gagnvart öðrum í ferðaþjónustu. Hann kallaði eftir því að allt regluverk og umgjörð útleigu og skattlagningar sumarhúsa yrði endurmetið og einfaldað. Þá vantaði skýrar heimildir í lögum um tímabundna útleigu. Sumir leigja út í nokkra daga, vikur eða mánuði en aðrir allt árið um kring.

Skúli hvatti stjórnendur annarra sveitarfélaga til að bregðast við og kanna málið í sínum ranni. Miklir hagsmunir væru í húfi fyrir sveitarsjóðina en aðalatriðið væri að sveitfélögum bæri að sjá til þess að allir sætu við sama borð og greiddu þá skatta sem þeim bæri. „Sveitarfélögin skulu ekki gjalda, heldur fá sitt,“ voru lokaorð sveitarstjórans.