13. nóv. 2017

Lokaskýrsla um forsendur þjóðgarðs á miðhálendinu er komin út

Byggja þarf upp kjarnastarfsemi sem fylgt getur eftir aukinni áherslu á vernd hálendisins samhliða sjálfbærri nýtingu sem rúmast innan verndarsvæða. Fjallað er um forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands í lokaskýrslu nefndar sem skipuð var á síðasta ári vegna málsins.

Nefndin var skipuð 14. júlí, 2016 og var skv. skipunarbréfi falið að kortleggja svæðið innan miðhálendislínu m.t.t. stofnunar þjóðgarðs, annað hvort með stækkun Vatnajökulsþjóðgarðar eða með öðrum hætti.

Miðhálendið nær yfir 40% af flatarmáli landsins og er með stærstu óbyggðu svæðum Evrópu. Mannvirki eru fremur fá og dreifð, en svæðið markast í heild sinni af miðhálendislínu, sem hefur í grunninn verið dregin á milli heimalanda annars vegar og afrétta hins vegar.

Þessi hluti hálendisins þykir einstakur af náttúrunnar hendi og innan hans eru svæði sem njóta þegar verndar að einhverju leyti. Fjallað hefur verið um það af hálfu Alþingis, stjórnvalda, hagsmunaaðila og almennings hvernig landnýtingu skuli háttað, ekki síst með hliðsjón af vaxandi fjölda ferðamanna hér á landi.

Sviðsmyndir fyrir þjóðgarð á miðhálendinu

Í lokaskýrslunni er heildstætt yfirlit yfir miðhálendið sem lýsir náttúru þess, verndun, nýtingu og innviðum. Einnig eru kynntar til sögunnar fjórar sviðsmyndir, sem draga hver með sínu móti fram mismunandi verndunarsjónarmið og lagðar voru fram til umræðu á fundum sem nefndin hélt með þeim sveitarfélögum sem eiga land að miðhálendinu.

Nefna má í þessu sambandi að skv. skilgreiningum Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna, IUCN, fyrir þjóðgarða er einstökum svæðum innan þjóðgarðs heimilt að falla undir fleiri en einn verndunarflokk, allt eftir þeim markmiðum sem unnið er eftir.

Heiti sviðsmyndanna eru lýsandi fyrir efnistök hverrar:

(1) Miðhálendisþjóðgarður sem felur í sér að stofnaður verði þjóðgarður sem tekur til þjóðlendna og friðlýstra svæða innan miðhálendisins. Þjóðgarðurinn yrði valddreifður en með samræmda stefnu, skipulag, leyfisveitingar og stjórnsýslu.

(2) Jöklagarðar, en sú sviðsmynd felur í sér að þjóðgarðar verði stofnaðir um friðlýst svæði og jökla með möguleikum á stækkun í samræmi við opinbera stefnumótun um verndun og nýtingu lands.

(3) Þjóðgarðar á miðhálendinu á núverandi friðlýstum svæðum. Byggir þessi sviðsmynd á því að slíkir þjóðgarðar hefðu hver eigið svæðisráð. Hver garður tæki jafnframt breytingum í samræmi við náttúruminjaskrá, rammaáætlun og aðra opinbera stefnumótun.

(4) Óbreytt fyrirkomulag.

Fundað var með sveitarfélögum á fimm fundum vítt og breitt um landið. Þau sveitarfélög eru Akrahreppur, Ásahreppur, Bláskógabyggð, Blönduósbær, Borgarbyggð, Djúpavogshreppur, Eyjafjarðarsveit, Flóahreppur, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Mýrdalshreppur, Norðurþing, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Skaftárhreppur, Skútustaðahreppur, Sveitarfélagið Hornafjörður, Sveitarfélagið Skagafjörður og Þingeyjarsveit.

 

Helstu áherslur sveitarfélaga

Fundina með sveitarfélögunum sátu einnig umhverfis- og auðlindaráðherra, formaður nefndarinnar og fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Eftirfarandi er svo samantekt á því helsta sem fram kom, en umræðupunktar af fundnunum eru birtir í heild sinni í skýrslunni í viðauka 1.

 

  • Friðlýsingar eru víða í undirbúningi og æskilegt er að sjá hvernig samstarf ríkis og sveitarfélaga gengur á þeim svæðum, m.a. varðandi fjármögnun.
  • Tryggja verður að óbeinn eignarréttur sem felst í veiði og búfjárbeit innan miðhálendisins sé tryggður þótt stofnaður verði þjóðgarður.
  • Þjóðgarður má ekki koma í veg fyrir þróun samganga eða orkuflutning sem er nauðsynlegur fyrir atvinnustarfsemi og þróun byggðar.
  • Móta þarf heildarstefnu fyrir miðhálendið til langs tíma sem samstaða er um og traust verður að ríkja í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og við hagsmunaaðila.
  • Heimamenn þurfa að hafa áhrif á stefnumótun og stjórnun þjóðgarða og leggja þarf áherslu á að ná bæði markmiðum jákvæðrar byggðaþróunar og verndunar. Svæðisráð gætu verið góð tenging í heimabyggð.
  • Æskilegt er að samhæfa stjórnsýslu þjóðgarða, t.d. með nýrri þjóðgarðastofnun.
  • Þjóðgarður má ekki vera of háður sértekjum. Það þarf að tryggja ákveðinn rekstrargrunn og þjónustu innan þjóðgarðsins sem og stofnkostnað.
  • Æskilegt væri að greina betur hvaða áhrif þjóðgarðar hafa á nærsamfélög og hvernig þeir hafa áhrif á skipulagsgerð sveitarfélaga.

(Forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, Lokaskýrsla nefndar, Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, nóvember 2017, bls. 90-91)

 

Samspil verndunar og sjálfbærrar nýtingar

Í lok skýrslunnar segir síðan að með þjóðgarðsstofnun sé ætlunin að byggja á samspili verndunar og sjálfbærrar nýtingar. Byggja þurfi upp kjarnastarfsemi sem hefur getu til að fylgja eftir þróun til framtíðar og aukinni áherslu á vernd og sjálfbæra nýtingu sem rúmast getur innan verndarsvæða, s.s. sjálfbæra beit, veiðar, orkunýtingu, útivst og ferðaþjónustu auk uppbyggingar innviða eins og samganga.

 

Nefndina skipuðu Sigríður Auður Arnardóttir, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og jafnframt formaður nefndarinnar, Anna G. Sverrisdóttir, tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar,  Árni Finnsson, tilnefndur af frjálsum félagasamtökum á sviði umhverfismála,  Dagbjört Jónsdóttir og Valtýr Valtýsson, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Páll Þórhallsson, tilnefndur af forsætisráðuneyti, Ragna Árnadóttir, tilnefnd af Samorku,  Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands, Sveinbjörn Halldórsson, tilnefndur af Samtökum útivistarfélaga.

Þá skipuðu samráðshóp nefndinnar sérfræðingar frá Skipulagsstofnun, Landmælingum Íslands, Vatnajökulsþjóðgarði, Umhverfisstofnun, Ferðamálastofu og Náttúrufræðistofnun Íslands.