12. nóv. 2017

Sveitarfélagið Garður og Sandgerðisbær sameinast

Sameining Sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðisbæjar á Reykjanesi var samþykkt í íbúakosningum sem fram fóru í gær. Var sameiningin samþykkt með 71,5% atkvæða í Garði og rúmum 55% í Sandgerði.

Kjörsókn var um 53% í Garði og 55,2% í Sandgerði og lágu úrslit fyrir á 12 tímanum í gærkvöldi.

Þessi niðurstaða felur í sér að kosið verður í komandi sveitarstjórnarkosningum í maí nk. til bæjarstjórnar í nýju sveitarfélagi, sem verður það næst fjölmennasta á Reykjanesi. Samhliða verður kosið um nafn á nýja sveitarfélaginu. Verður bæjarstjórnin skipuð 9 fulltrúum.

Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Sandgerði, fagnar í viðtali á visir.is niðurstöðinni sem hann segir ávísun á stærra og sterkara sveitarfélag, sem hefur burði til að veita betri þjónustu og standa með öflugri hætti að þeim framkvæmdum sem sveitarfélagið þarf að ráðast í.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veitir nýja sveitarfélaginu 100 milljóna króna framlag til þess að endurskipuleggja stjórnsýslu og þjónustu auk 294 milljóna króna framlags til skuldajöfnunar.

 Með sameiningunni fækkar sveitarfélögum hér á landi úr 74 í 73.