08. des. 2017

Fagnaðarefni að íbúum fjölgi

  • Thorlakshofn-12

Endurskoðun á úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs stendur nú yfir og eru framlög sjóðsins til fjölkjarna sveitarfélaga á meðal þess sem verið er að skoða. Staða sveitarfélaga sem njóta íbúafjölgunar hefur ekki verið rædd, að sögn Karls Björnssonar, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag. Efni standi ekki til að auka framlög sjóðsins út á fjölgun íbúa.
 
Veruleg íbúafjölgun á Suðurlandi hefur hrundið af stað umræðu um stöðu sveitarfélaga sem standi frammi fyrir slíkum „vaxtarverkjum“. Í Árborg hefur íbúum fjölgað á einu ári um ríflega 6%, í Hveragerði um rúm 5% og 3% í Þorlákshöfn og, eins og fram kemur í fréttaskýringu blaðsins, hefur Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar gagnrýnt að sveitarfélög í örum vexti geti ekki af þeirri ástæðu sótt um framlög sjóðsins, lítt og tíðkist í Noregi. Þá hefur Ásta einnig gagnrýnt stöðu fjölkjarnasveitarfélaga gagnvart framlögum úr sjóðnum.
 
Varðandi úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðs bendir Karl á, að íbúafjölgun vegist í þeim efnum á við vanda sveitarfélaga sem standi frammi fyrir fækkun íbúa. Vandi þeirra síðarnefndu sé meiri í ljósi þess, að þeim fari fækkandi sem standi undir skuldbindingum viðkomandi sveitarfélaga.
 
Almennt séð er að sögn Karls fagnaðarefni hjá sveitarfélagi að íbúum fjölgi. Þau sveitarfélög sem glíma við mikla og öra íbúafjölgun á stuttum tíma, gætu jafnframt þurft heimildir til að auka skuldir umfram almennar fjármálareglur. Þegar hægst hafi á vextinum og jafnvægi sé að nýju náð, taki nýir skattgreiðendur þá þátt í kostnaðinum við að byggja upp þjónustu og aðra innviði.
 
Hvað stöðu fjölkjarna sveitarfélaga snertir, benti Karl á að full ástæða sé að marga mati til þess að auka vægi þeirra í úthlutunum sjóðsins. Ástæðan sé aðallega sú, að ekki náist fram sama hagræði í rekstri þeirra og hjá sveitarfélögum sem eru e.t.v. með aðeins einn kjarna. Á síðasta ári fóru um 280 m.kr. til fjölkjarna sveitarfélaga af m.a. þeirri ástæðu.

Thorlakshofn-12Frá Þorlákshöfn (mynd af olfus.is)