05. des. 2016

Dyrfjöll - Stórurð, gönguparadís fékk umhverfisverðlaun Ferðamálastofu

Á ferðamálaþingi, sem haldið var 30. nóvember sl., voru afhent umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2016. Verðlaunin hreppti verkefnið Dyrfjöll – Stórurð, gönguparadís, sem var unnið í samstarfi tveggja sveitarfélaga, Borgarfjarðarhrepps og Fljótsdalshéraðs, og er dæmi um það hvernig samvinna sveitarfélaga getur stuðlað að vandaðri uppbyggingu ferðamannastaða.

Bætt aðgengi og aðstaða

Verkefnið felst í að bæta aðgengi að og styrkja göngusvæði Stórurðar og Dyrfjalla með stikun og lagfæringu göngustíga, merkinga, uppsetningu upplýsingaskilta og –korta og síðast enn ekki síst byggingu þjónustuhúss.

Þjónustuhúsið bætir ekki aðeins úr margfrægum skorti á salernisaðstöðu heldur virkar það sem upphafsreitur eða gátt inn á svæði sem áður bjó ekki yfir skýrum upphafsstað eða útgangspunkti.

Frumleg og stílhrein hönnun

Hönnun arkitektsins Rönning Anderssen er í senn frumleg og stílhrein og nýtir sér sérstöðu og svip Dyrfjalla. Verkefnið styrkir sjálfbæra ferðamennsku gönguferða á ferðmannasvæði sem þolir meiri nýtingu, eykur öryggi ferðamanna, eflir lýðheilsu, stuðlar að náttúruvernd og eykur staðarstolt heimamanna.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, og Jón Þórðarson, sveitarstjóri Borgarfjarðarhrepps, veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd sveitarfélaganna. Nánar er greint frá verðlaunaafhendingunni á heimasíðu Ferðamálastofu.