08. des. 2017

Brýnt að efla sveitarstjórnarstigið

Nýr samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jónsson, vill hefja samtal við sveitarfélögin um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Tillögur, sem starfshópur um eflingu sveitarstjórnarstigsins lagði til við ráðherra fyrr á þessu ári, verða ólíklega að frumvarpi fyrir næsta vorþing. Of stutt er til þess, að mati ráðherrans nú, til sveitarstjórnarkosninga.

Samstarf og samráð ríkis og sveitarfélaga kemur víða fyrir í stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar. Spurður að markmiðum þess í tíufréttum RÚV í gær, sagði Sigurður Ingi að stefnt væri að efla yrði sveitarfélögin í landinur frá því sem nú er, svo að almenningur geti sótt vinnu og fengið alla opinbera þjónustu án tillits til búsetu.

„Það mun þýða að sveitarstjórnirnar eða sveitarfélögin, þau þurfa að eflast frá því sem nú er og þau þurfa að verða einsleitari í að geta sinn þessari þjónustu í samstarfi við ríkið,“ sagði ráðherra.

Á meðal þess sem starfshópurinn lagði til var að lágmarksfjöldi íbúa yrði aukinn í áföngum í 1.000 og að jöfnunarsjóður liðki í auknum mæli fyrir sameiningu sveitarfélaga.

Ráðherra segist ætla að kynna sér tillögurnar vel. Jafnframt velti hann því fyrir sér hvort komi á undan, eggið eða hænan.

„Á að koma á undan að sem sagt að breyta strúktúr sveitarfélaganna áður en þau eflast og geta tekið við nýjum verkefnum. Það er svolítið ákall á því í þessari skýrslu og það er lögð til þessi leið að sætkka sveitarfélögin með lágmarksíbúafjölda. Ég mun vilja taka þetta samtal við Samband íslenskra sveitarfélaga og við íbúana áður en við höldum lengra.“