20. des. 2018

Áhrif friðlýstra svæða á framleiðslu og atvinnu í næsta umhverfi

Beinn efnahagslegur ávinningur af friðlýstum svæðum nemur 10 milljörðum króna, samkvæmt niðurstöðu skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Heilarávinningur þjóðarbúsins er metinn á 33,5 milljað króna. Ávinningurinn er þó misjafnlega mikill eftir svæðum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók í gær við skýrslunni,  sem fjallar um  áhrif friðlýstra svæða á framleiðslu og atvinnu í næsta umhverfi. Rannsóknin tók til 12 svæða á Íslandi og sýnir ótvírætt að mati skýrsluhöfunda að efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða á Íslandi séu jákvæð. Helstu niðurstöðu voru kynntar á umhverfisþingi sem fram fór í Reykjavík þann 9. nóvember sl.

Samkvæmt rannsókn Hagfræðistofnunar verja ferðamenn samtals 10 milljörðum íslenskra króna á ári, innan þeirra svæða sem rannsökuð voru og í næsta nágrenni við þau. Við það skapast um 1.800 störf á umræddum stöðum eða um 1.500 heil stöðugildi. Um bein störf er að ræða í ferðaþjónustu, svo sem í gistingu, skipulögðum ferðum, akstri og veitingum. Einnig leiddi rannsóknin í ljós að um 45% af eyðslu ferðafólks fer fram innan friðlýstra svæða eða næsta nágrenni.

Svæðin sem voru rannsökuð eru Ásbyrgi/Jökulsárgljúfur, Laki og Skaftafell, sem öll eru í Vatnajökulsþjóðgarði, Þingvellir, Dynjandi, Hraunfossar, Landmannalaugar, Mývatn, Þórsmörk, Hengifoss og Hvítserkur. Tvö þau síðasttöldu eru ekki friðlýst, enda þótt svæðinu við Hengifoss sé stjórnað af Vatnajökulsþjóðgarði. Þessi svæði voru þó engu að síður tekin með, með hliðsjón af landfræðilegri breidd rannsóknarinnar. Þá voru niðurstöður úr áður birtri rannsókn á Snæfellsjökulsþjóðgarði uppfærðar, þannig að heildarfjöldi svæðanna varð 12.

Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru svo þær, að fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila 23 krónur sér til baka. Hlutfallið er ólíkt á milli svæða, allt frá 10:1 við Dynjanda og upp í 158:1 við Hraunfossa. Á Þingvöllum er hlutfallið 25:1, í Vatnajökulsþjóðgarði 15:1 og í Þórsmörk 21:1, svo dæmi séu tekin.