Skipulag sem tekur til fjarða og flóa við strendur landsins staðfest

Innviðaráðherra hefur staðfest tillögur svæðisráða að Strandsvæðisskipulagi Austfjarða og Strandsvæðisskipulagi Vestfjarða.

Mynd; Skipulagsstofnun

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, staðfesti í dag tillögur svæðisráða að Strandsvæðisskipulagi Austfjarða og Strandsvæðisskipulagi Vestfjarða. Þetta eru tímamót í skipulagssögu landsins þar um er að ræða fyrsta skipulag sem tekur til fjarða og flóa við strendur landsins. Skipulagið öðlast gildi þegar það hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Svæðisráðin sem hafa unnið að tillögunum eru skipuð fulltrúum sveitarfélaga á svæðunum, fulltrúa Samband íslenskra sveitarfélaga ásamt fulltrúum þriggja ráðuneyta. Strandsvæðisskipulag tekur til afmarkaðra svæða á fjörðum og flóum utan staðamarka sveitarfélaga. Þar er sett fram stefna og ákvarðanir stjórnvalda um hvernig framtíðarnýtingu og vernd svæðisins verður háttað. Skipulagið leggur þannig grunn að framkvæmdum og annarri starfsemi á skipulagssvæðunum.

Víðtækt samráð

Strandsvæðisskipulag er unnið í góðri samvinnu ríkis og sveitarfélaganna sem liggja að skipulagssvæðinu. Svæðisráð er skipað fyrir hvert skipulagssvæði sem ber ábyrgð á skipulagsgerðinni. Í þeim sitja fulltrúar heimafólks, Sambands íslenskra sveitarfélag og þriggja ráðuneyta. Skipulagsstofnun veitir svæðisráðum aðstoð við mótun skipulagsins, kynningu á tillögum og eftirfylgni þeirra þegar skipulagið hefur tekið gildi.

Við mótun tillagna höfðu svæðisráðin víðtækt samráð við íbúa, sveitarstjórnir, hafnarstjórnir og hagsmunaaðila. Vatnasvæðanefndir á viðkomandi svæðum voru til ráðgjafar en einnig eru ýmsar stofnanir ráðgefandi í verkefnum sem þessum, m.a. Ferðamálastofa, Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun, Landgræðslan, Landhelgisgæsla Íslands, Landmælingar Íslands, Matvælastofnun, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Samgöngustofa, Umhverfisstofnun, Veðurstofan og Vegagerðin. 

Nánar um strandsvæðaskipulagið, skipulagsuppdrætti, greinargerðir, skipan svæðisráða og samráðshópa á vef Stjórnarráðsins.

Fulltrúar í svæðisráðum um strandsvæðisskipulag fyrir Austfirði annars vegar og Vestfirði hins vegar ásamt innviðaráðherra og starfsfólki Skipulagsstofnunar. Mynd Sigurjón Ragnar af vef Stjórnarráðsins.