Skipt búseta barna lögfest

Alþingi hefur samþykkt frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á barnalögum sem kveða á um skipta búsetu barna. Lögin öðlast gildi 1. janúar 2022. Markmið laganna er að stuðla að jafnari stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp saman á tveimur heimilum.

Mynd: Picsea á Unsplash

Þannig er gert ráð fyrir að foreldrar geti alfarið unnið saman í öllum málum er varða barnið. Gera þarf samning um skipta búsetu sem sýslumaður staðfestir. Í slíkum samningi þarf að kveða á um sameiginlega forsjá, virkt samstarf foreldra, sameiginlega ákvarðanatöku, nálægð heimila þannig að barn geti sótt einn leik- eða grunnskóla, og eigi frjálsan og greiðan aðgang að samfelldu tómstundastarfi og öðrum frístundum frá heimilum beggja foreldra, sem og samkomulag um hvar barn hefur lögheimili og hvar búsetuheimili. 

Samband íslenskra sveitarfélaga studdi samþykkt frumvarpsins eins og fram kemur í umsögn sambandsins um málið. Miðað er áfram við þá meginreglu að skylda til að veita þjónustu eins og grunn- og leikskólavist miðist við lögheimili barns og með hliðsjón af kröfu um nálægð heimila má gera ráð fyrir að foreldrar sem semja um skipta búsetu eigi oftast lögheimili í sama sveitarfélagi. Kostnaðarárhrif laganna fyrir sveitarfélög eru því metin óveruleg. Sambandið hefur þó bent á að í ljósi reynslu og þróunar hjá nágrannaþjóðum megi búast við að börnum í skiptri búsetu muni fjölga umtalsvert. Samhliða vaxandi hópi barna í skiptri búsetu megi sjá fyrir sér ríkari kröfur foreldra um að sveitarfélögin jafni aðstöðumun búsetuforeldra og lögheimilisforeldra t.d. með tvískiptingu niðurgreiðslna vegna frístunda- og tómstundastyrkja ásamt kröfu um að reikningar vegna þjónustu við barn verði einnig tvískiptir og kostnaði deilt jafnt á báða foreldra í stað þess að lögheimilisforeldri geti eitt sótt um styrki eða móttekið reikning. Slíkt geti kallað  á breytingar á tölvukerfum sveitarfélaga frá því sem nú er og þannig leitt af sér talsverðan kostnað. 

Þá hefur sambandið bent á mikilvægi þess í tengslum við ýmsa þjónustu við íbúa að sveitarfélög fái sem fyrst upplýsingar um íbúa úr þjóðskrá, þ.á m. upplýsingar um börn sem búa skiptri búsetu, án þess að sérstök greiðsla komi fyrir.  

Lögin gera ráð fyrir að skipaðir verði starfshópar á vegum félagsmála-, heilbrigðis- og fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem falið verði að leggja til hvernig breyta skuli lögum og reglugerðum sem heyra undir málefnasvið þeirra og meta þörf á breytingum með hliðsjón af skiptri búsetu barns. Sambandið væntir þess að eiga gott samstarf við starfshópa ráðuneytanna um innleiðingu laganna og nauðsynlegar breytingar sem samþykkt þeirra leiðir af sér.