Skerðingu á framlögum til jöfnunarsjóðs mótmælt harðlega

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkt á fundi sínum í dag, harðorða bókun vegna skerðinga sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt til á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ráðherra og ríkisstjórn hafi brugðist trausti sveitarfélaga á mjög alvarlegan hátt og er þess krafist, að teknar verði upp viðræður við fjármála- og efnahagsráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála. Leiði þær viðræður ekki til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir sveitarfélögin verður gripið til róttækra aðgerða af hálfu sambandsins.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti á fundi sínum fyrr í dag, harðorða bókun vegna skerðinga sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt til á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Stjórnin krefst þess að teknar verði upp viðræður við fjármála- og efnahagsráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála. Leiði þær viðræður ekki til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir sveitarfélögin, verður gripið til róttækra aðgerða af hálfu sambandsins.

Segir í bókun stjórnar m.a. að um einhliða aðgerð sé að ræða, sem gangi þvert á samstarf ríkis og sveitarfélaga í opinberum fjármálum. Ráðherra og ríkisstjórn hafi brugðist trausti sveitarfélaga á mjög alvarlegan hátt og veikt fjárhagslegan grundvöll þeirra, ekki aðeins gagnvart þeim þjónustuverkefnum sem jöfnunarsjóði er ætlað að standa undir, heldur einnig getu þeirra til að standa undir launakostnaðarhækkunum að kjaraviðræðum loknum. Þá er bent á, að aðgerðin hafi engin áhrif á heildarafkomu hins opinbera, enda þótt bæta megi afkomu ríkissjóðs með þessu móti á kostnað sveitarfélaganna.

Bókunin í heild:

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga mótmælir harðlega þeirri fyrirætlun fjármála- og efnahagsráðherra, sem kynnt hefur verið forystu sambandsins, að gera ráð fyrir í tillögu að fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2020-2024 skerðingu á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 3,3 ma.kr. á næstu tveimur árum.

Ekkert samráð var haft við sambandið eða sveitarfélög þegar þessi einhliða ákvörðun var tekin og eru þessi vinnubrögð í algjörri andstöðu við það góða samstarf sem þróast hefur milli sambandsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins síðustu ár. Með þessu hefur ráðherra og ríkisstjórn brugðist trausti sambandsins á mjög alvarlegan hátt. Samvinna aðila á grundvelli laga um opinber fjármál undanfarin ár hefur verið byggð á því að aðilar hafi sammælst um að haga sameiginlega opinberum fjármálum á þann hátt að jafnvægi væri í rekstri og skuldir greiddar niður. Nú bregður svo við að ríkið ætlar að bæta afkomu sína á kostnað sveitarfélaga, en það breytir ekki heildarafkomu hins opinbera.

Meginþungi framlaga ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga rennur annars vegar skv. samkomulagi aðila til að fjármagna hluta af þjónustu við fatlað fólk og hins vegar til sveitarfélaga á landsbyggðinni sem mörg hafa veikan fjárhag. Skilaboðin sem þessi skerðing felur í sér eru að sveitarfélög dragi úr þjónustu við fatlað fólk auk þess sem dregið er úr getu fjölda sveitarfélaga til að standa undir launakostnaðarhækkunum í kjölfar komandi kjarasamninga. Ekki er ólíklegt að þessar fyrirætlanir hafi áhrif á samskipti og ákvarðanir sveitarfélaga gagnvart ríkisvaldinu á ýmsum sviðum. Einnig má vænta að þessi aðgerð auki á skuldasöfnun margra sveitarfélaga í stað þess að þau lækki skuldir sínar eins og sameiginlegur vilji ríkis og sveitarfélaga hefur staðið til undanfarin ár með góðum árangri.

Umrædd aðgerð felur í sér árás á sjálfsákvörðunarrétt og fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga. Hún veikir rekstrargrundvöll margra þeirra verulega og á sér ekki fordæmi í samskiptum þessara tveggja stjórnsýslustiga. Á sama tíma er fjárhagslegur grundvöllur sveitarfélaga víða í uppnámi vegna utanaðkomandi aðstæðna.

Stjórn sambandsins krefst þess að boðuð áform um tekjuskerðingu gagnvart sveitarfélögum verði dregin til baka svo skapaður verði á ný jarðvegur fyrir eðlileg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Nú þegar verði teknar upp viðræður við fjármála- og efnahagsráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála um málið og leiði þær viðræður ekki til ásættanlegrar lausnar fyrir sveitarfélögin verður gripið til róttækra aðgerða af hálfu sambandsins. Gætu þær meðal annars falið í sér að fulltrúar sveitarfélaga hætti þátttöku í samstarfsverkefnum ríkis og sveitarfélaga og jafnframt að sambandið dragi sig út úr vinnu við gerð samkomulags á milli ríkis og sveitarfélaga á grundvelli laga um opinber fjármál. Á meðan á viðræðum stendur munu fulltrúar sveitarfélaga engar ákvarðanir taka í samstarfsverkefnum ríkis og sveitarfélaga.