Þann 1. desember var stofnfundur Sjálfbærniráðs Íslands haldinn og á sama tíma var samstarfsvettvangnum Sjálfbæru Íslandi formlega hleypt af stokkunum.
Hlutverk Sjálfbærs Íslands verður m.a. að hraða aðgerðum til að ná markmiðum um sjálfbæra þróun eins og þau birtast í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar. Á vettvangi Sjálfbærs Íslands verður einnig mótuð stefna Íslands um sjálfbæra þróun og unnið að því að réttlát umskipti á öllum sviðum samfélagsins séu leiðarljós í allri stefnumótun og aðgerðum.
Forsætisráðherra er formaður Sjálfbærniráðs en í ráðinu eiga einnig sæti aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar auk fulltrúa sveitarfélaga, atvinnugreinasamtaka, launafólks, þingflokka á Alþingi og frjálsra félagasamtaka er rík áhersla er lögð á víðtækt samráð við þá aðila sem koma að málefnum sjálfbærni.
Í því skyni að samræma vinnu hins opinbera hefur verið skipaður stýrihópur með fulltrúum allra ráðuneyta auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá er einnig starfandi framkvæmdahópur sem er teymi sérfræðinga sem vinnur að þeim verkefnum sem Sjálfbæru Íslandi eru falin.