Sveitarstjórnarvettvangurinn fundaði í nítjánda sinn í Hurdal í Noregi 27.-28. júní 2019. Hann tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.
Sveitarstjórnarvettvangurinn fundaði í nítjánda sinn í Hurdal í Noregi 27.-28. júní 2019. Hann tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.
Helstu umfjöllunarefni vettvangsins að þessu sinni voru sjálfbær Evrópa 2030 og leiðbeiningar ESB um siðferðisleg álitamál tengd gervigreind.
Þá var Rakel Óskarsdóttir, stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, kjörin formaður Sveitarstjórnarvettvangs EES-EFTA.
Fulltrúar Íslands, Noregs og Sviss á fundinum í Hurdal.
ESB leggur áherslu á að samþætta heimsmarkmiðin inn í stefnumótun sína og að tryggja aðkomu sveitarstjórnarstigsins að innleiðingu markmiðanna.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru mikið í deiglunni þessi misserin og á fundinum var rætt um áherslur og markmið ESB í tengslum við þau. ESB hefur sett fram áætlun sem nefnist: Towards a Sustainable Europe by 2030. Í henni er lögð áhersla á að heimsmarkmiðin muni ekki nást nema með markvissri aðkomu sveitarfélaga, enda falla mörg af markmiðunum undir ábyrgð og verksvið sveitarfélaga. Því má reikna með að áætlanagerð og starfsemi evrópskra sveitarfélaga muni taka sífellt meira mið af kröfunni um sjálfbært samfélag.
Á fundinum kynnti Roger Ryberg, forseti Buskerud fylkis í Noregi, hvernig unnið er að innleiðingu markmiðanna í fylkinu og hvernig þau munu verða grundvöllur að allri stefnumótun nýs svæðis, Viken, sem verður til með sameiningu Buskerud og tveggja annarra fylkja um næstu áramót. Í kjölfar sameiningarátaks norsku ríkisstjórnarinnar mun norskum sveitarfélögum fækka úr 426 í 356 um næstu áramót og til verða 11 svæði (regioner) í stað 18 fylkja. Viken verður stærsta svæðið og mun ná yfir öll sveitarfélögin í kringum Oslófjörðinn. Hann sagði frá OECD verkefni um innleiðingu heimsmarkmiðanna sem Buskerud tekur þátt í, ásamt Kópavogsbæ, og nokkrum stærstu borgum heims svo sem Tókýó og Moskvu. Ryberg kom einnig inn á mikilvægi þess að sveitarfélög taki þátt í evrópsku samstarfi, eins og EES EFTA sveitarstjórnarvettvanginum, til þekkingaruppbyggingar og til að takast á við þær lýðræðisáskoranir sem Evrópa stendur nú frammi fyrir.
Á fundinum var samþykkt ályktun um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og áætlun ESB um sjálfbæra þróun. Í ályktuninni er bent á mikilvægi þess að ríki Evrópu samþætti heimsmarkmiðin í stefnumótun sína. Þar er einnig lögð áhersla á að markmiðum í tengslum við sjálfbæra þróun verði ekki náð án markvissrar þátttöku sveitarstjórnarstigsins. Bent er á mikilvægi þess að framkvæmdir og þjónusta sveitarfélaga þurfi að byggja á aðferðarfæði sjálfbærrar þróunar og að sveitarfélög stuðli að sjálfbærum neysluvenjum almennings. Þá er einnig bent á mikilvægi þátttöku ungmenna í þessari vinnu, enda er ljóst að þessi mál snerta þeirra framtíð og að þátttaka þeirra og áhrifamáttur getur skipt sköpum. Ályktunin var flutt af Runar Bålsrud, bæjarstjóra í Hurdal í Noregi. Ályktuninni verður komið á framfæri við stjórnvöld EFTA ríkjanna, ESB og stofnanir EFTA.
Álitamál í tengslum við notkun á gervigreind
Sveitarstjórnarvettvangurinn ræddi málefni tengd notkun á gervigreind og hugsanleg áhrif sem „fjórða iðnbyltingin“ mun hafa á starfsemi sveitarfélaga og daglegt líf almennings.
ESB hefur að undanförnu fjallað um tækifæri og áskoranir í tengslum við „fjórðu iðnbyltinguna“, þar með talið aukna notkun á tækni sem notar gervigreind. ESB hefur gefið út skýrslu um hvernig Evrópa getur hagnýtt sér gervigreind og leiðbeiningar í tengslum við siðferðileg álitamál í tengslum við gervigreind, Ethics guidelines for trustworthy Artificial Intelligence. Svæðanefnd ESB hefur einnig fjallað um málefni tengd notkun á tækni sem byggir á gervigreind.
Tækni sem nýtir gervigreind er nú þegar farin að hafa mikil áhrif á líf okkar, allt frá því að aðstoða okkur við val á lögum á Spotify til sjálfkeyrandi ökutækja og sjúkdómsgreininga. Í þessu felast gríðarlegir möguleikar m.a. til að veita betri og hagkvæmari velferðarþjónustu. Í því tilliti má t.d. nefna tækni sem byggir á gervigreind og aðstoðar þá sem kjósa að eyða efri árunum heima hjá sér frekar en á elliheimili.
Þessari tækni fylgja einnig ýmis álitamál og erfiðar siðferðilegar spurningar. Notkun á tækni sem notar gervigreind kallar á upplýsingar m.a. um hegðun, heilsu og félagslegar aðstæður almennings. Því verður að huga vel að því með hvaða hætti þessum upplýsingum er safnað, hvernig þær eru geymdar og með hvaða hætti þær eru notaðar. Því er mikilvægt að skýr lagarammi sé til staðar í tengslum við notkun á gervigreind og að gætt sé að grundvallar mannréttindum þegar gervigreind er notuð til þess að taka ákvarðanir um málefni sem snerta almenning. Þá er einnig nauðsynlegt að almenningur geti leitað réttar síns og að ákvörðunarferlið sé gagnsætt og ýti ekki undir mismunun. Nýleg persónuverndarreglugerð ESB er mikilvæg grunnstoð í því sambandi.
Á fundinum fjallaði Robindra Prabhu, sérfræðingur hjá vinnu- og félagsmálastofnun Noregs, um álitamál sem kunna að koma upp í tengslum við notkun á tækni sem notar gervigreind. Þá fjallaði hann einnig um leiðbeiningar ESB í tengslum við gervigreind, en hann telur þær veita mjög mikilvæga leiðsögn til að takast á við siðferðisleg álitamál tengd hagnýtingu gervigreindar. Þar kemur meðal annars fram að mikilvægt sé að eftirlit með ákvörðunarferlum sem byggja á gervigreind sé skilvirkt og að ákvarðanir sem snerta almenning séu ekki eingöngu teknar með hjálp gervigreindar heldur sé mikilvægt að mannleg aðkoma sé hluti af þessu ferli.
Á fundinum var samþykkt ályktun um málið þar sem tekið er undir með Svæðanefnd ESB um mikilvægi þess að Evrópa verði leiðandi í þróun og nýtingu á tækni sem byggir á gervigreind. Lögð er áhersla á að Evrópuríkin vinni saman að þessum málum, m.a. að því sem snýr að lagalegum og siðferlislegum álitamálum í tengslum við gervigreind. Í ályktuninni er tekið undir þau sjónarmið sem sett eru fram í leiðbeiningum ESB varðandi siðferðisleg í tengslum við gervigreind. Þar er m.a. fjallað um mikilvægi þess að grundvallar mannrétti almennings séu tryggð. Þá eru sveitarfélög hvött til þess að fylgist grannt með þessari þróun og að aðkoma þeirra sé tryggð þegar stefna stjórnvalda varðandi þessi mál er þróuð. Ljóst er að í þessari tækni felast mikil tækifæri fyrir sveitarfélög, m.a. í tengslum við bætta þjónustu við almenning. Á sama tíma þarf að gæta þess að mannréttindi almennings séu virt, t.d. hvað varðar heilsufarslegar upplýsingar og aðrar viðkvæmar persónuupplýsingar. Ályktunin var flutt af Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formanni borgarráðs Reykjavíkurborgar. Ályktuninni verður komið á framfæri við stjórnvöld EFTA ríkjanna, ESB, stofnanir EFTA og Svæðanefnd Evrópusambandsins.
Fulltrúar Íslands í Sveitarstjórnarvettvangi EES-EFTA
- Eggert Kjartansson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi;
- Rakel Óskarsdóttir, stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af sambandinu;
- Rósa Guðbjartsdóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu;
- Sigurður Hreinsson, varaformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga;
- Þorleifur Karl Eggertsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra;
- Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af Reykjavíkurborg.
- Dagskrá fundarins
- Þátttakendur
- Bakgrunnsskjal um álitamál í tengslum við notkun á gervigreind
- Ályktun um álitamál í tengslum við notkun á gervigreind
- Bakgrunnsskjal um sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna og vinnu ESB í tengslum við þau
- Ályktun um sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna og vinnu ESB í tengslum við þau