Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ráðið sex nýja stjórnendur en nýverið tóku gildi skipulagsbreytingar hjá sambandinu og eru ráðningarnar liður í þeirri vegferð þar sem markmiðið er að skerpa á hlutverki sambandsins og gera það í betur stakk búið til að takast á við þau verkefni og áskoranir sem sambandið sinnir frá degi til dags.
Þórdís Sveinsdóttir er nýr sviðsstjóri þróunarsviðs. Hún kemur til sambandsins frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. þar sem hún hefur starfað sem lánastjóri frá árinu 2016. Áður starfaði hún hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og EY. Þórdís er viðskiptafræðingur með áherslu á reikningshald og endurskoðun frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja og stjórnun frá Lund Universitet. Einnig er hún löggiltur verðbréfamiðlari.
Helga María Pálsdóttir er nýr sviðsstjóri stjórnsýslusviðs. Helga María lauk MA próf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2009, hlaut réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 2010, og lauk LL.M í evrópskum viðskiptarétti og MSc í stjórnun frá Lund Universitet árið 2018. Hún hefur starfað sem bæjarritari og sviðsstjóri stjórnsýslu- fjármálasviðs hjá Árborg frá árinu 2019, auk þess að vera staðgengill bæjarstjóra. Áður starfaði Helga sem lögfræðingur hjá fjölmiðlanefnd á árunum 2018 til 2019. Þá starfaði hún sem löglærður fulltrúi bæði hjá Mandat á árinum 2011 til 2016 og hjá slitastjórn LBI á árinum 2009 til 2011.
Valur Rafn Halldórsson mun leiða nýtt þjónustusvið en hann hefur starfað sem sviðstjóri rekstrar- og útgáfusviðs hjá sambandinu frá árinu 2017. Valur var sérfræðingur hjá sambandinu frá 2011 til 2017. Hann lauk B.A prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Þá er Valur með MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu og M.A í stjórnun og stefnumótun frá sama skóla.
Inga Rún Ólafsdóttir er formaður samninganefndar sveitarfélaga en hún var sviðsstjóri kjarasviðs sambandsins frá árinu 2008 til 2023 og framkvæmdastjóri Launanefndar sveitarfélaga frá árinu 2008 til 2010. Áður var Inga Rún framkvæmdastjóri þjónustuskrifstofu sex stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna frá árinu 2000 til 2008. Hún er með BA próf í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands og diplómapróf í mannauðsstjórnun frá Endurmenntun HÍ. Þá hefur hún setið námskeið í samningatækni hjá Harvard Law School.
Valgerður Rún Benediktsdóttir er nýr yfirlögfræðingur sambandsins. Valgerður hefur starfað hjá sambandinu frá árinu 2020. Hún var lögfræðingur og mannauðsstjóri hjá Menntamálastofnunar frá 2016 til 2020 og skrifstofustjóri hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá 2012 til 2016. Valgerður hefur fjölbreytta reynslu af verkefnum sveitarfélaga og ríkis og hefur setið í fjölda nefnda og stjórna m.a. Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins og Byggðastofnunar.
Grétar Sveinn Theodórsson er nýr samskiptastjóri sambandsins. Grétar hefur starfað sem ráðgjafi í almannatengslum undanfarin 17 ár og var um tíma upplýsingafulltrúi félagsmálaráðuneytisins. Hann er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og er með meistaragráðu í almannatengslum frá Curtin Business School. Grétar kennir námskeið í almannatengslum og samskiptum við bæði Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst.
“Ég er virkilega ánægður með nýtt stjórnendateymi sambandsins en við höfum verið að innleiða nýtt skipurit sambandins þar sem markmiðið er að auka skilvirkni og bæta skipulag, þjónustu, samskipti og upplýsingaflæði, bæði inn og út á við, og auka sýnileika sambandsins gagnvart haghöfum og öðrum landsmönnum. Framundan eru mörg spennandi verkefni og ég hlakka mikið til að vinna með þessu öfluga teymi.“
Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.