Aldís Hafsteinsdóttir, nýkjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir eitt brýnasta verkefni næstu missera að skilgreina verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Skipting verka á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga þurfi að vera án grárra svæða, og sannmælast verði um sanngjarna fjármögnun þjónustunnar. Setja á manninn, íbúa og byggðir þessa lands í fyrsta sæti.
Aldís Hafsteinsdóttir, nýkjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir eitt brýnasta verkefni næstu missera að skilgreina verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Skipting verka á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga þurfi að vera án grárra svæða, og sannmælast verði um fjármögnun þjónustunnar.
Aldís flutti fyrsta ávarp sitt á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, sem fram fer í dag á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu.
Auk þess sem Aldís vék í máli sínu að mikilvægi þess að gagnsæi ríki í verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og taldi hún að með yfirfærslu gistináttagjalds til sveitarfélaga hefði viss áfangasigur náðst í viðræðum við ríkið um hlutdeild í almennum skatttekjum samfara auknum verkefnum sveitarfélaga. Allan þennan tíma hafi sambandið fengið algjöra höfnun hjá ríkinu, á þeirri forsendu að sveitarfélögin séu vel fjármögnuð með þeim staðbundu sköttum sem þau hafa.
Sagði Aldís jafnframt, að verði sanngjörn krafa sveitarfélaga viðurkennd um hlutdeild í sköttum sem hafa ekki skýran staðbundinn uppruna, myndu þær tekjur renna í miðlægan sjóð og dreifast síðan til sveitarfélaga á grundvelli regluverks. Það regluverk þurfi sveitarfélögin að koma sér saman um. Mikilvægt sé að sveitarfélög geti fjármagnað nauðsynlega uppbyggingu á næstu árum.
Almennt er fjárhagsstaða flestra sveitarfélaga góð um þessar mundir. Skuldir hafa verið greiddar niður en það hefur að einhverju leyti verið á kostnað innviðauppbyggingar og viðhalds, sem gengur ekki til lengdar. Það er því ljóst að annað hvort verða sveitarfélögin að draga úr rekstrarkostnaði, og þar með að lækka þjónustustigið, eða að fá auknar tekjur til uppbyggingar.
Varðandi þá rás atburða sem sett hafa svip sinn á síðustu viku í fiskeldismálum sagði Aldís það umhugsunarvert, hversu lítið þurfi í raun til að búsetuskilyrði heils landsfjórðungs skerðist gríðarlega með ófyrirséðum afleiðingum. Ekki sé síður umhugsunarvert að ekki hafi enn tekist að dreifa rafmagni, grænni orku, á sanngjarnan og skynsamlegan hátt um land allt.
Þá hvatti Aldís til þess að maðurinn, íbúinn og byggðir þessa lands verði sett í fyrsta sæti.
Verðum við ekki í auknum mæli að fara að setja manninn, íbúa og byggðir þessa lands, í fyrsta sæti, og viðurkenna að án framfara, útsjónarsemi, nýsköpunar, framkvæmda og tekjuöflunar, getum við ekki staðið undir þeim hagvexti sem er forsenda þeirrar lífskjara sem við búum við og viljum bæta. Án uppbyggingar nauðsynlegra innviða, hvort sem er hér á höfuðborgarsvæðinu eða lengra út á landi þá ber okkur vinna þannig að málum að á öllum þessum svæðum verði ríkir möguleikar til verðmætasköpunar.