Seltjarnarnesbær hlýtur Orðsporið 2019

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, tók í dag við Orðsporinu 2019 – hvatningarverðlaunum sem afhent eru á Degi leikskólans. Verðlaunin voru veitt því sveitarfélagi sem þykir hafa skarað fram úr við að bæta starfsaðstæður og starfskjör leikskólakennara umfram kjarasamning.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, tók í dag við Orðsporinu 2019 - hvatningarverðlaunum sem afhent eru á Degi leikskólans. Verðlaunin voru veitt því sveitarfélagi sem þykir hafa skarað fram úr við að bæta starfsaðstæður og starfskjör leikskólakennara umfram kjarasamning.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti orðsporið sem var nú veitt í sjöunda sinn. Að þessu sinni fór verðlaunaafhending fram í Brákarborg í Reykjavík. Var af því tilefni efnt til sannkallaðrar hátíðar í leikskólanum og skemmtu börnin í  Brákarborg gestum með glaðværum söng.

Þá voru voru í tilefni dagsins einnig afhent verðlaun í ritlistarsamkeppninni Að yrkja á íslensku. Fyrstu verðlaun hlaut Bjarkey Sigurðardóttir, leikskólanum Jötunheimum á Selfossi fyrir ljóðið Sumar, önnur verðlaun hlaut Hersteinn Snorri , leikskólanum Ásgarði í Húnaþingi, fyrir ljóðið Skipstjórinn og þriðju verðlaun fengu Maceij, Indiana Alba, Katla Sól, Helga Katrín, Arnlaug Fanney í leikskólanum Akraseli á Akranesi fyrir ljóðið Ævintýri.

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynntu úrslit í samkeppninni. Borgarstjóri afhenti síðan Bjarkeyju Sigurðardóttur viðurkenningu fyrir besta ljóðið.

Hvatningarverðlaun á Degi leikskólans eru veitt með hliðsjón af niðurstöðum könnunar sem skólamálanefnd Félags leikskólakennara gerir á meðal sveitarfélaga landsins og sneri að atriðum á borð við aukinn undirbúningstíma, tölvukost, styttingu vinnuviku, rými barna og ýmis hlunnindi. 

Þess má svo geta að Dagur leikskólans er nú haldinn hátíðlegur í 12. sinn. Daginn ber upp 6. febrúar, sem er merkisdagur í leikskólasögunni fyrir þá sök, að á þessum degið árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólanna hér á landi fyrstu samtök sín.  

Fyrri orðsporshafar eru Hörgársveit (2018), Framtíðarstarfið (2017), Ásmundur Örnólfsson (2016), Kópavogsbær og Sveitarfélagið Ölfus (2015), Okkar mál - þróunarverkefni í Fellahverfi (2014) og Súðavíkurhreppur / Kristín Dýrfjörð og Margrét Pála Ólafsdóttir (2013).  


Ljósmyndir af verðlaunahátíðinni á Brákarborg í dag: Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, og Soffía Guðmundsdóttir, leikskólastjóri Leikskóla Seltjarnarness ásamt 
Haraldi Frey Gíslasyni, formanni Félags leikskólakennara; Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhendir Ásgerði Orðsporið 2019; börnin á Brákarborg syngja af innlifun lag leikskólans á verðlaunahátíðinni; Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhendir Bjarkeyju Sigurðardóttur viðurkenningu fyrir besta ljóðið í ritlistasamkeppni Að yrkja á íslensku. (Ljósm. KÍ og sambandið)