Selásskóli sigraði Sexuna

Sjöundi bekkur Selásskóla sigraði stuttmyndasamkeppnina Sexuna sem haldin var í fyrsta sinn í ár.

Ungmenni í 7. SB. í Heiðarsskóla, Reykjanesbæ hlutu annað sæti og 7. bekkur í Suðurhlíðarskóla hlutu þriðja sætið. Af því tilefni fengu hinar upprennandi kvikmyndagerðarkonur úr Selásskóla, Karen, Agatha, Sara, Sigrún, Iza Sara, Anna, Dalía og Karmen sérstaka viðurkenningu á 112 deginum sem haldinn var hátíðlegur í Hörpu um helgina.

Sigurstuttmyndin fjallar um hvernig tæling birtist ungmennum sem eru að feta sín fyrstu skref á stafrænum miðlum en ungmenni mega byrja að nota samfélagsmiðla 13 ára gömul.

…vinningsmyndin er vel framsett saga og frábærlega vel leikin stuttmynd sem heldur áhorfandanum vel við efnið og hreyfir sannarlega við honum, með húmor og sterkum skilaboðum.“

Í umsögn dómnefndar um sigurmyndbandið

Stuttmyndasamkeppnin Sexan var hluti af viku Sex, þar sem lögð er áhersla á kynfræðslu í grunnskólum landsins. Í tengslum við keppnina fengu nemendur fræðslu um hvernig stafrænt ofbeldi birtist ungu fólki og áttu svo að búa til stuttmynd um eitt af fjórum viðfangsefnum: Tælingu, samþykki, slagsmál eða nektarmynd og fór þátttaka fram úr björtustu vonum.

Vinningsmyndböndin verða sýnd á vef UngRÚV, en þau hafa einnig verið send til allra grunnskóla landsins sem fræðsluefni gegn stafrænu ofbeldi fyrir börn og ungmenni.

Samband íslenskra sveitarfélaga þakkar öllum þátttakendum þeirra framlag og óskar stúlkunum úr 7. bekk Selásskóla til hamingju með sigurinn!