Samþykkt að kanna ávinning sameiningar

Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa ákveðið skipa samstarfsnefnd sem kanna skal ávinning af sameiningu sveitarfélaganna m.t.t. bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og auknum slagkrafti í byggða-, atvinnu- og samgöngumálum. Verði sameining sveitarfélaganna samþykkt, verður til landfræðilega stærsta sveitarfélag landsins, rúmlega 12 þúsund ferkílómetrar að stærð.

Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa ákveðið að kanna mögulegan ávinning af sameiningu sveitarfélaganna m.t.t. bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og auknum slagkrafti í byggða-, atvinnu- og samgöngumálum. Verði sameining sveitarfélaganna samþykkt, verður til landfræðilega stærsta sveitarfélag landsins, rúmlega 12 þúsund ferkílómetrar að stærð.

Endanleg ákvörðun um sameiningu verður lögð undir íbúa í almennri íbúakosningu, auk þess sem tillagan sem kosið verður um, verður unnin með virkri þátttöku íbúa, að því er fram kemur í frétt frá sveitarfélögunum. Á þeim íbúafundum verður tekin umræða um tækifæri og áskoranir, sem geta falist í sameiningu sveitarfélaganna. Hlutverk kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélaganna verður að undirbúa sameiningartillöguna eins vandlega og kostur er og kynna verkefnið fyrir íbúum, svo að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um niðurstöður.

Haldnir verða kynningarfundir þann 20. júní nk. í Skjólbrekku í Skútustaðahreppi kl. 17 og í Þingeyjarsveit í Ljósvetningabúð kl. 20. Kynnt verður ferli verkefnisins  og íbúum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri strax í upphafi.

Samstarfsnefnd sveitarfélaganna er skipuð í samræmi við 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Hana skipa þrír aðalfulltrúar og þrír til vara frá hvoru sveitarfélagi og er stefnt er að því að tillögur nefndarinnar verði lagðar fyrir  sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar fyrir árslok 2020. Sveitarstjórar sveitarfélaganna, Þorsteinn Gunnarsson í Skútustaðahreppi og Dagbjört Jónsdóttir í Þingeyjarsveit, munu starfa með nefndinni.

Fulltrúar sveitarfélaganna hafa fundað með fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að fá upplýsingar um aðkomu ráðuneytisins og stuðning jöfnunarsjóðs við verkefnið.

Þá var við undirbúning málsins leitað eftir ráðgjöf RR ráðgjafar sem hefur sinnt verkefnastjórn og annarri ráðgjöf við verkefnið Sveitarfélagið Austurland og undirbúning sameiningar Sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðisbæjar, sem nú ber heitið Suðurnesjabær. Þá hafa ráðgjafar RR ráðgjafar reynslu af sameiningu annarra sveitarfélaga.

Fréttatilkynning frá sveitarstjórnum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar