Samtaka um hringrásarhagkerfi – staða verkefna

Verkefnið ,,Samtaka um hringrásarhagkerfi“ hefur verið á ferð og flugi frá því að það fór af stað í mars en markmiðið er að aðstoða sveitarfélög við að innleiða þær miklu breytingar í úrgangsmálum sem voru innleiddar í íslenskt regluverk í júní 2021 og koma til framkvæmda 1. janúar 2023.

Í sumar var send út könnun til allra sveitarfélaga um innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Alls fengust svör frá 45 sveitarfélög sem verður að teljast býsna gott. Niðurstöður þessarar könnunar eru mjög gott veganesti fyrir áframhaldandi vinnu innan átaksins. Munu helstu niðurstöðurnar verða kynntar á ráðstefnu á vegum átaksins sem fyrirhuguð er í október.

Samtaka um hringrásarhagkerfi skiptist í þrjá verkefnahluta, sem allir hafa það hlutverk að renna styrkari stoðum undir innleiðingu hringrásarhagkerfið hérlendis. Verkefnið hófst formlega 16. mars með kynningarfundi. Margt hefur gerst síðan og hér er staða verkefnanna þriggja:

1. hluti: Svæðisáætlanir sveitarfélaga sem verkfæri í ákvarðanatöku

  • Sambandið gerði víðreist um landið í vor og fundaði með öllum sveitarfélögum sem skráð voru í verkefnið með það markmið að efla og styrkja svæðisáætlanagerð sveitarfélaga fyrir meðhöndlun úrgangs sem vettvang upplýstrar ákvarðanatöku í úrgangsstjórnun.
  • Á næstunni fá þau sveitarfélög sem skráðu sig til þátttöku í þessum hluta átaksins grunnstöðumat á meðhöndlun úrgangs á sínu svæði, byggða á fundunum og á samantekt sem unnin hefur verið á viðkomandi svæðum.
  • Öll sveitarfélög á Norðurlandi hafa tekið ákvörðun um að vinna saman svæðisáætlun, sama má segja um Austurland og nýlega Vestfirði. Samvinna af sama tagi er þegar í gangi í Skaftafellssýslum. Suðvesturhluti landsins, þ.e. Suðurland, suðvesturhornið og Vesturland, alls 32 sveitarfélög, hafa nýlokið við gerð sameiginlegrar svæðisáætlunar. Aldrei áður hefur náðst jafnmikil samvinna í svæðisáætlanagerð sem er vísir að aukinni samvinnu í úrgangsmálum á næstu árum.
  • Handbók um úrgangsstjórnun sveitarfélaga var gefin út í sumar og er aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Um er að ræða vegvísi sveitarfélaga og verkfærakistu í úrgangsmálum. Þar er finna stefnumótandi ákvarðanir og upplýsingar um þjónustu sem sveitarstjórnir bera ábyrgð á samkvæmt lögum, en þar má einnig finna ítarlegar leiðbeiningar um gerð svæðisáætlana.

2. hluti: Kaup í anda hringrásarhagkerfis – innkaup í úrgangstjórnun sveitarfélaga

  • Innkaup sveitarfélaga á þjónustu, vörum og framkvæmdum í úrgangsmálum munu koma til með að þróast og breytast í takti við nýjar áherslur vegna fyrirliggjandi lagabreytinga.
  • Haldinn var kynningar- og vinnufundur 31. maí þar sem um 60 manns tóku þátt í hópumræðum og hlýddu á fræðslu. Fundurinn var bæði fyrir kjörna fulltrúa og lykilstarfsfólk í fjár- og innkaupamálum og úrgangsstjórnun sveitarfélaga. Í vinnulotum og verkefnavinnu fengu þátttakendur tækifæri til að endurspegla stöðuna á sínu svæði. Samantekt frá vinnustofum má nálgast hér.
  • Unnið er að gerð sniðmáta fyrir innkaup á úrgangsþjónustu sem eru hugsað til að leiðbeina við útboðsgerð. Settur er fram rammi fyrir útboðsgögn, hvaða atriði þarf að setja fram í útboðsgögnum og gefin eru dæmi um útfærslur á vissum atriðum. Þar sem sveitarfélög búa við mismunandi aðstæður og eru með ólíka innviði fyrir söfnun og meðhöndlun úrgangs, verða útboðsgögn hvers sveitarfélags sérstök þó tekið sé mið af sniðmátinu varðandi framsetningu. Fyrsta sniðmátið sem gefið verður út fjallar um útboð á hirðu úrgangs frá heimilum og grenndarstöðvum.
  • Samhliða verða sett fram góð ráð yfir hvað þarf að varast og hvað má ekki gleymast við útboðsgerð.

3. hluti: Borgað þegar hent er kerfi heim í hérað

  • Í lagabreytingunum sem taka gildi eftir áramót er sveitarfélögum gert skylt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og skal innheimtan vera sem næst raunkostnaði. Eftir áramót skal fast gjald takmarkast við 50% af heildarfjárhæð gjalda og 25% frá og með árinu 2025. Þessar breytingar kalla á innleiðingu svokallaðrar Borgað þegar hent er kerfa (BÞHE), sem þýðir að flest sveitarfélög þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi.
  • Samband íslenskra sveitafélaga bauð kjörnum fulltrúum og lykilstarfsfólki í úrgangsstjórnun sveitarfélaga til kynningar- og vinnufundar um BÞHEþann 5. maí. Meginefni fundarins voru nánari útfærslur á niðurstöðum greiningar frá því í janúar 2022 á mögulegum útfærslum á BÞHE kerfinu.
  • Sambandið hefur frá því í vor unnið að greiningu á þeim breytingum sem þurfa að verða á álagningarkerfi fasteignagjalda, þar sem gjöld vegna meðhöndlunar úrgangs hafa verið innheimt samhliða þeim. Stefnt er að því að greiningarvinnunni ljúki í lok september en hún er unnin í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem tók nýlega við kerfinu frá Þjóðskrá.
  • Síðustu vikur hafa verið vel nýttar í samtöl og undirbúning. Fulltrúar sambandsins hafa heyrt í fulltrúum sveitarfélaga til að fræðast um stöðu þeirra, áskoranir og sýn til framtíðar. Fundað hefur verið sérstaklega með sveitarfélögum sem hafa stórar sumarhúsabyggðir og reynt að kanna hvaða leið sé raunhæfust hvað varðar innleiðingu á BÞHE kerfum í þess konar byggðum.
  • Heildstæð aðgerðaáætlun fyrir sveitarfélögin þar sem tilgreint er lið fyrir lið hvaða skref þurfi að taka til að undirbúa gildistöku nýrra lagaákvæða um áramót verður aðgengileg þátttakendum í þessum hluta átaksins um miðjan október.

Fram undan er ráðstefna undir yfirskriftinni ,,Samtaka um hringrásarhagkerfi - réttur farvegur til framtíðar“. Ráðstefnan er á vegum Umhverfisstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga og verður haldin föstudaginn 7. október frá kl. 10:00-15:30 í Hvammi, Grand Hótel.

Á ráðstefnunni verða upplýsingar um öll verkefnin þrjú dregin saman. Afar mikilvægt er að fá sem flesta kjörna fulltrúa, ásamt starfsfólki í úrgangs-, tækni- og fjármálum sveitarfélaganna, til að koma saman og ræða stóra verkefnið: Hringrásarhagkerfið. Fundurinn er öllum opinn og nánari dagskrá verður kynnt fljótlega.