Vinnueftirlitið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands eiga í samstarfi um verkefni sem hefur það markmið að meta áhættuþætti í vinnuumhverfi starfsfólks leik- og grunnskóla.
Ætlunin er að stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi og um leið að góðri heilsu, vellíðan og öryggi allra sem þar starfa. Með verkefninu er ætlunin að stjórnendur og starfsfólk öðlist dýpri skilning á áhrifum áhættuþátta á vinnustaðamenningu og vinnuumhverfi, rýni áhættuþætti síns vinnuumhverfis og fái í kjölfarið stuðning til að efla heilbrigt og jákvætt vinnuumhverfi.
Verkefnið gengur út á að stjórnendur og starfsfólk þátttökuskólanna rýni áhættuþætti í vinnuumhverfi sínu. Til að mynda skipulag og upplifun starfsfólks á samskiptum á vinnustaðnum, bæði innan hans og við utanaðkomandi aðila sem eiga samskipti við hlutaðeigandi skóla. Veittur yrði stuðningur til stjórnenda og starfsfólks innan verkefnisins til að finna leiðir til að stuðla að góðri heilsu, vellíðan og öryggi starfsfólks í leik- og grunnskólum þar sem áherslan er á að leita leiða til að efla heilbrigða vinnustaðamenningu.
Tilurð verkefnisins
Niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um stöðu fólks á íslenskum vinnumarkaði og ástæður brotthvarfs af vinnumarkaði, frá október 2022, sem gerð var fyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Vinnueftirlitið, leiðir meðal annars í ljós að sérfræðingar í kennslu og uppeldisfræði upplifa sig meira andlega úrvinda eftir vinnudaginn en aðrar starfsstéttir og finnst þeir glíma við tilfinningalega erfiðar aðstæður í vinnunni.
Verkefninu er ætlað að beina athyglinni að sálfélagslegum áhættuþáttum í vinnuumhverfi innan leik- og grunnskóla, þar á meðal að styrkja áhrif heilbrigðrar vinnustaðamenningar, skipulags og samskipta til að draga úr sálfélagslegu álagi starfsfólks. Minni áhersla er á aðra áhættuþætti sem snúa til dæmis að loftgæðum og hljóðvist.
Leitað er eftir þátttöku fjögurra leik- og/eða grunnskóla og eru áhugasamir skólastjórnendur hvattir til að sækja um í samvinnu við sveitarfélagið sitt.
Áherslur verkefnisins eru þríþættar:
- Að veita stjórnendum og starfsfólki stuðning og fræðslu til að efla góða heilsu, vellíðan og öryggi starfsfólks.
- Að hvetja vinnustaði til að rýna vinnustaðamenningu sína, þar á meðal ríkjandi gildi og viðhorf innan vinnustaðarins.
- Að veita vinnustöðum stuðning við að skapa heilbrigða vinnustaðamenningu þar sem áhersla er á virkni, jákvæð viðhorf og vellíðan í starfi þar sem stefnt er að þátttöku starfsfólks.
Leiðir að lausnum
Innan verkefnisins verður unnið með þátttakendum að því að sníða verkefnið að hverjum þátttökuskóla ásamt því að setja upp aðgerðaáætlun með ákveðnum atriðum sem unnið verður með líkt og:
- stuðning við stjórnendur og starfsfólk
- traust
- tilgang
- áhrif á eigin störf
- frelsi til athafna
- trú á eigin getu
- samskipti á vinnustaðnum
- vinnustaðamenningu
- valdeflingu
Verkefnið byggist á stað- og fjarfundum með leiðbeinanda, með áherslu á fræðslu, samtal, jafningjastuðning og sjálfsvinnu.
Í upphafi verkefnisins verður framkvæmd forkönnun meðal starfsfólks þátttökuskóla með það að markmiði að kanna starfsánægju og viðhorf til vinnustaðamenningar í hverjum skóla fyrir sig. Við lok verkefnisins verður könnunin endurtekin til þess að sjá hvort breytingar hafi átt sér stað á starfsánægju og viðhorfi eftir innleiðingu aðgerða verkefnisins.
Skilyrði fyrir þátttöku
Fyrir liggi almenn stefna um leik- og grunnskólahald í sveitarfélaginu þar sem skólinn starfar.
Nánari upplýsingar gefur: Guðrún Birna Jörgensen, leiðtogi verkefnastofu Vinnueftirlitsins, í síma: 550-4600 eða í tölvupósti: gudrun.jorgensen@ver.is
Áhugasamir sendi umsóknir á netfang Vinnueftirlitsins: vinnueftirlit@ver.is
Umsóknarfrestur er til 1. desember 2023.