Samstarfssamningur á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála

Samband íslenskra sveitarfélaga og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti hafa gert með sér samstarfssamning um verkefni sveitarfélaga á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, undirrituðu samninginn. Mynd af vef stjórnarráðsins.

Markmið samningsins er að styrkja samskipti og samstarf sambandsins við ráðuneytið á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála, sem og að auka upplýsingamiðlun um málefni sveitarfélaga til ráðuneytisins.

Sambandið mun á samningstímanum vinna að verkefnum á sviði hringrásarhagkerfis og loftslagsmála í samstarfi með viðeigandi aðilum. Meðal þeirra verkefna sem unnið verður að má nefna átakið „Samtaka um hringrásarhagkerfi“, handbók um úrgangsstjórnun, og áframhaldandi stuðning við innleiðingu Borgað þegar hent er kerfa.

Samband íslenskra sveitarfélaga mun aðstoða sveitarfélög við framkvæmd loftlagsaðgerða á sveitarstjórnarstigi í samræmi við uppfærða aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum, stuðla að því að sveitarfélög setji sér aðgerðamiðaða loftslagsstefnu fyrir eigin rekstur á grunni nýjustu upplýsinga og leiðbeininga og vinna að sameiginlegum og samtengdum loftslagsmarkmiðum ríkis og einstakra sveitarfélaga eða landshluta í samfélagslegri losun með norrænnar fyrirmyndir til hliðsjónar. Þá mun sambandið sjá um vöktun á fyrirætlunum ESB og upplýsingagjöf til sveitarfélaga hvað varðar umhverfis-, orku- og loftslagsmál um möguleg áhrif á íslensk sveitarfélög, sem og styðja við styrkjaumsóknir sveitarfélaga vegna umhverfisumsókna í erlenda sjóði á borð við LIFE, Horizon Europe og Digital Europe.