Samsköpun – lykillinn að betri þjónustu og auknum lífsgæðum íbúa?

Samsköpun nýtur sem aðferðafræði í nýsköpun og þróun opinberrar þrjónustu vaxandi vinsælda á hinum Norðurlöndunum, ekki hvað síst hjá sveitarfélögum. Vinnustofa með Anne Tortzen, einum fremsta sérfræðingi í samsköpun, verður haldin þann 3. júní í tengslum við Nýsköpunardag hins opinbera.

Samsköpun nýtur sem aðferðafræði í nýsköpun og þróun opinberrar þjónustu vaxandi vinsælda á hinum Norðurlöndunum, ekki hvað síst hjá sveitarfélögum. Vinnustofa með Anne Tortzen, einum fremsta sérfræðingi í samsköpun, verður haldin þann 3. júní í tengslum við Nýsköpunardag hins opinbera.

Á vinnustofunni verður fjallað um samsköpun sem hagnýtt tæki til umbóta í þjónustu sveitarfélaga og með hvaða móti kjörnir fulltrúar og stjórnendur geta nýtt þessa aðferðafræði með markvissum og árangursríkum hætti.

Vinnustofan er byggð á nýútkominni bók Anne Tortzen, Samskabelse af velfærd, sem fjallar um kosti og galla samsköpunar sem aðferðar; hvað hafi gefist vel hjá dönskum sveitarfélögum og hvað megi gera betur. 

Yfirskrift vinnustofunnar er hvernig bæta megi lífsgæði íbúa og þjónustu sveitarfélaga með samsköpun (e. How can life quality of citizens and commuities be improved through co-creation?) Fyrirlestrar og umræður fara fram á víxl, en á meðal þess sem Anne Tortzen mun veita þátttakendum aukna innsýn í er samsköpun sem aðferð til að leysa úr flóknum viðfangsefnum, s.s. í velferðarþjónustu og hvað beri helst að varast þegar stuðst er við samsköpun í nýsköpun og þróun opinberrar þjónustu.

Vinnustofan með Anne Tortzen verður í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur við Brynjólfsgötu, 3. júní nk. kl. 13:00 til 16:30. Hún verður svo einnig aðalfyrirlesari á Nýsköpunardegi hins opinbera þann 4. júní.

Fyrirlestrar fara fram á ensku. Skráning á báða viðburði er á vef sambandsins.

Anne Tortzen er á meðal leiðandi ráðgjafa á Norðurlöndunum á sviði íbúaþátttöku og samsköpunar (e. co-creation, d. samskabelse) og hefur fjöldi norrænna sveitarfélaga notið liðsinnis hjá ráðgjafafyrirtæki hennar, Center for Borgerdialog.

Hún hefur  áður komið hingað til lands í boði Sambands íslenskra sveitarfélaga og gat sér þá orðs sem áhugaverður og skemmtilegur fyrirlesari.