Samræmdar flokkunarmerkingar hafa áhrif á hegðun fólks við að minnka magn úrgangs og auka flokkun 

Notkun á samræmdum og skýrum flokkunarmerkingum úrgangstegunda nær fram betri flokkun, dregur úr magni úrgangs með áhrifum á upprunaflokkun ásamt því að draga úr kostnaði við meðhöndlun úrgangs – sem var einmitt markmiðið með merkingarkerfinu.

Samræmdar og skýrar merkingar ásamt hnippingu* (e. nudging), s.s. með upplýsingaspjöldum auka enn árangurinn.  

Þetta sýnir nýleg sænsk könnun sem var gerð að beiðni Avfall Svergie, sem eru samtök fyrir úrgangsstjórnun sænskra sveitarfélaga. Avfall Svergie hefur umsjón með samnorrænum merkingum fyrir flokkun og söfnun úrgangs í Svíþjóð en sömu merkingar innleiddi Ísland árið 2020 og má finna á  ílátum úrgangs víða um land. Samband íslenskra sveitarfélaga er, ásamt Avfall Svergie og öðrum fulltrúum staðbundinna stjórnvalda í Finnlandi og Danmörku, aðili að norrænu samtökunum EUPicto sem hefur umsjón með merkingunum og er vettvangur ákvarðanatöku um þróun og notkun þeirra.    

Markmið könnunarinnar var að skoða hvort notkun á samnorrænu merkingunum gæti haft áhrif á íbúa fjölbýlishúsa til að flokka úrgang betur í sorprýmum en einnig að skoða áhrifin ef hnippingu yrði að auki beitt. Heildarmarkmiðið var að finna aðferð til að breyta hegðun fólks þannig að magn blandaðs úrgangs myndi dragast saman ásamt því að minnka kostnað íbúa og sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs.  

Könnun Avfall Svergie var framkvæmd í samstarfi við tvö stór fasteignafélög í Gautaborg á þremur mismunandi borgarsvæðum. Mismunurinn á milli svæðanna lá í ólíkum félags- og hagfræðilegum þáttum, m.a. innkomu og félagslegri stöðu íbúa. Samanburðurinn fólst í því að skoða árangur í flokkun úrgangs í þremur sorprýmum á hverju svæði fyrir sig á tveggja mánaða tímabili. Aðstæðum í sorprýmunum var stjórnað þannig að hægt var að bera saman rými þar sem aðeins ílát var að finna, þar sem búið var að koma upp viðeigandi merkingum fyrir hvert ílát og rými þar sem bæði merkingum og hnippingu var beitt. Úrgangstegundirnar sem voru til skoðunar voru blandaður úrgangur, matarleifar, glerumbúðir, pappír og pappi, málmumbúðir, plastumbúðir og dagblöð.  

Samkvæmt niðurstöðunum eykur notkun á samræmdum merkingum líkur á betri og aukinni flokkun. Skilningur íbúa og breyting á hegðun þeirra eykst enn frekar ef hnippingu er beitt. Jákvæðar og hvetjandi upplýsingar virkja rökræna hugsun og vinna á móti hegðun sem er mótuð af sjálfsstýringu og gömlum venjum. Á heildina litið bættu íbúar fjölbýlishúsanna flokkun úrgangs verulega á þeim tíma sem könnunin fór fram og drógu úr kostnaði vegna meðhöndlunar hans. Könnunin sýnir mikilvægi þess að með því að sameina ólíkar aðgerðir, s.s. með skýrum merkingum og jákvæðum upplýsingum, má ná sem bestum árangri við að draga úr úrgangsmagni og kostnaði við meðhöndlun úrgangs. 

Hér má nálgast frétt Avfall Sverige um könnunina og könnunina í heild sinni

*Nudge = hnipping, aðferð í atferlisfræði. Snýst um að fá fólk til að breyta atferli sínu af fúsum og frjálsum vilja með aðferðum sem byggja á skilningi á hvernig mannfólkið hugsar.